
Tónlistarborgin
Tónelskir gestir borgarinnar ættu ekki að vera í vandræðum með að finna eitthvað við sitt hæfi en tónleikastaðir Reykjavíkur bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Þúsundir tónleika fara fram í Reykjavík á ári hverju, á ólíkum stöðum hér og þar um borgina, svo sem í Hörpu, Salnum, Gamla bíói, Hannesarholti, Norræna húsinu, Mengi og Dillon.
Heimsfrægt innlent tónlistarfólk hefur átt sinn þátt í að auðga borgina í gegn um tíðina með tónlist sinni, svo sem Björk, Sigur Rós, Gus Gus, Emiliana Torrini, Ólafur Arnalds, Kaleo, Of Monsters and Men, Víkingur Heiðar Ólafsson og tónskáldin Hildur Guðnadóttir og Jóhann Jóhannsson. Kunnum við þeim miklar þakkir fyrir og hlökkum til að heyra hvað næstu kynslóðir hafa fram að færa.
Tónlistarhátíðir með ólíkar áherslur eru haldnar árlega í borginni. Iceland Airwaves og Secret Solstice Festival bjóða upp á popp-, rokk-, indí- og raftónlistarveislu á meðan Myrkir Músíkdagar, Jazzhátíð Reykjavíkur, Óperudagar, Reykjavík Folk Festival og Blúshátíð í Reykjavík þjóna þeim sem þyrstir að heyra þjóðlagatónlist, jazz, blús eða klassíska tónlist.
Gestir borgarinnar ættu einnig að geta fundið tónlist til að taka með sér heim í plötubúðum eins og Smekkleysu, Lucky Records og 12 Tónum en sú verslun var nýverið valin besta tónlistarbúð heims af blaðamanni NME, Marcus Barnes.
Nú hyggst Reykjavíkurborg efla hið fjölbreytta og kraftmikla tónlistarlíf sem hér þrífst enn frekar. Til þess hefur verið sett á fót verkefnið Tónlistarborgin Reykjavík sem hefur það að markmiði að næra frekari uppbyggingu iðnaðarins og styðja við bakið á bæði upprennandi og þekktara tónlistarfólki.
Að lokum mælum við með því fyrir þau sem hyggjast heimsækja borgina á aðventunni að þau gefi sér tíma til að sækja einhverja af hinum mörgu jólatónleikum sem hér fara fram. Við lofum því að þar komist þið í jólaskapið!