SEGÐU ÞAÐ MEÐ LEIR

Njálsgata 58, 101 Reykjavík

Dagsetningar
Keramik Studíó Ragnheiður Ingunn
21, ágúst 2021
Opið frá: 13.00 - 18.00

Aðgangseyrir Sjá á opinberri vefsíðu

Ragnheiður Ingunn Ágústsdóttir leirlistakona hefur flutt vinnustofu sína á Njálsgötu 58a og verður að því tilefni með opið hús á Menningarnótt, 21. ágúst nk. frá klukkan 13-18.

Ragnheiður Ingunn leikur sér á jaðri handverks og iðnaðar, ekkert af verkum hennar eru nákvæmlega eins. Hún leyfir handverkinu að njóta sín og vill að það sjáist að hlutirnir eru handgerðir, hvort sem þeir eru renndir, steyptir eða handmótaðir.

„Þegar ég horfi á skýin þá finnst mér ég ótrúlega lítil en á sama tíma eins og ég sé hluti af einhverju miklu stærra. Formin líta öll eins út við fyrstu sýn en vinnuferlið hannar ófullkomleika sem gera hvert og eitt form einstakt. Þau mynda heildarmynstur eins og í náttúrunni. Þessi tjáning á stemningu andrúmsloftsins hátt uppi á himni, ósnertanlegum. Mig langar að móta þessa skammvinnu fegurð í eitthvað sem ég get snert og gert að minni eigin fegurð.“

Verk Ragnheiðar vísa í senn til hversdagslegra hluta og náttúrulegra forma. Fyrirbæri úr frumformum jarðarinnar og þjóðtrúar, eftirmyndir með nýtt hlutverk í samtíðinni. Í mótun verkanna er örfínn þráður á milli náttúrulegra og menningarlegra þátta. Nytjahlutir eru ávallt hannaðir með hlutverk í huga. En í tímanna rás öðlast handverk og saga hlutarins oft mun meira vægi en upprunalegt hlutverk hans. Hluturinn stendur þá einn og sér. Litirnir í verkunum kalla fram áferð litbrigða náttúrunnar, sem eru óteljandi og alls ekki eintóna. Frá gleði og gróanda til allt að óttalegum og fjandsamlegum eða eins og óspillt uppspretta undir köldum klaka.

Ragnheiður Ingunn er lærður myndlistarmaður og hönnuður, lauk Mastersgráðu í Iðnhönnun árið 1998 í Domus Academy í Mílanó á Ítalíu og Diploma í Myndlist árið 1991 við L’école des Arts Décoratifs í Strassborg í Frakklandi. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga auk þess að taka þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis.

Ragnheiður mun taka fagnandi á móti gestum og gangandi á Menningarnótt í bráðskemmtilegu nýju list- og vinnurými á Njálsgötu 58a þar sem hægt verður að kaupa, sjá og skoða verk hennar. Öll velkomin!

Svipaðir viðburðir

Reykjavík ... the story continues│ Aðalstræti 10
J.S. Bach á þriðjudagskvöldum 20:00 - 20:30

#borginokkar