Reykjavík Film City
  • Heim
  • Kvikmyndaborgin

Kvikmyndaborgin

Í Reykjavík er bæði hægt að fara í bíó og búa til bíó. Fyrirtæki í kvikmyndagerð á Íslandi hafa á síðustu árum tekið þátt í og staðið fyrir fjölmörgum stórum verkefnum, bæði í gerð kvikmynda, sjónvarpsþátta og auglýsinga. Í því farsæla starfi spilar sérþekking á bæði staðháttum og landslagi stórt hlutverk ásamt fagmennsku í kvikmyndagerð.

Gömlu iðnaðarhverfi á Gufunesi hefur nú verið umbreytt í Kvikmyndaþorp Reykjavíkur. Hugmyndin, sem var þróuð af Reykjavíkurborg í samstarfi við leikstjórann Baltasar Kormák, styður enn frekar við íslenskan kvikmyndaiðnað í bæði innlendri kvikmyndagerð sem og við gerð erlendra mynda og þátta hér á landi. RVK Studios er eitt stærsta kvikmyndaver í Evrópu en á þeim 3.200 fermetrum sem verið spannar er að finna upptökuver, búningsklefa, förðunaraðstöðu, búningageymslu, skrifstofur, fundarherbergi, kaffiteríu og hvað annað sem iðnaðurinn kallar á.

Á höfuðborgarsvæðinu eru ófá bíóhús sem sýna bæði nýjustu kvikmyndasmellina sem og listrænar myndir allstaðar að úr heiminum. Reykjavíkurborg styður einnig við bakið á kvikmyndahátíðum sem haldnar eru árlega í borginni. Meðal þeirra má nefna Stockfish, sem má segja að sé arftaki Kvikmyndahátíðar, Alþjóðlega barnakvikmyndahátíð í Reykjavík og síðast en ekki síst alþjóðlegu kvikmyndahátíðina RIFF eða Reykjavík International Film Festival sem er stórviðburður í borginni. Á RIFF kemur kvikmyndagerðarfólk hvaðanæva að til að fylgja myndum sínum og kynna þær, gestum hátíðarinnar býðst taka þátt í panelumræðum og vinnustofum, sækja myndlistarsýningar og tónleika auk þess að njóta gríðarlegs framboðs af kvikmyndum sem sýndar eru á hátíðinni.

Í desember 2020 verður Reykjavík þess heiðurs aðnjótandi að vera gestgjafi Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna, EFA. Verðlaunahátíðin fer fram í Hörpu en auk útdeilingar verðlaunanna verða fjölmargir hliðarviðburðir í tengslum við hátíðina. Búist er við um 1.400 gestum á verðlaunin en afhendingunni verður einnig sjónvarpað um alla álfuna. Að hátíðin sé haldin í Reykjavík er mikilvæg viðurkenning á velgengni og framförum í íslenskum kvikmyndaiðnaði og vekur athygli á borginni og landinu sem áhugaverðum og frambærilegum stað til kvikmyndagerðar.

Evrópska kvikmyndahátíðin (EFA)

10. Desember 2022

Evrópska kvikmyndahátíðin (EFA) var stofnuð árið 1988. Að hátíðinni koma nú yfir 3000 evrópskir kvikmyndasérfræðingar sem hafa það að markmiði að efla evrópska kvikmyndamenningu.

Háskólabíó
8mm film roll

Háskólabíó hefur í gegnum árin verið heimili íslenskra kvikmynda og listrænna gæðamynda frá öllum heimshornum auk þess sem hér eru sýndar stórar vinsælar myndir um leið og þær koma út.

#borginokkar