Bio-Paradis-3_by_TimotheeLambrecq-e

Bíó Paradís

Hverfisgata 54, Reykjavík 101, 4127711

Vefsíða: www.bioparadis.is

Bíó Paradís sýnir nýjar áhugaverðar kvikmyndir frá öllum heimshornum auk hverskyns eldri mynda erlendra sem innlendra, hýsir kvikmyndahátíðir og stendur fyrir fjölbreyttum kvikmyndatengdum viðburðum.

Reglulegar sýningar á perlum kvikmyndanna fyrir börn og unglinga fara fram í húsinu, þar sem markmiðið er að efla þekkingu og menntun á þessari mikilvægu listgrein. Bíó Paradís er því nokkurskonar hjarta kvikmyndamenningar í landinu; áfangastaður allra þeirra sem vilja eiga góðar stundir í afslöppuðu umhverfi sem angar af andrúmslofti kvikmyndanna. Hús af þessu tagi eru meðal lykilstofnana höfuðborga víðsvegar um heim, vinsælir áfangastaðir fyrir heimamenn jafnt sem ferðamenn. Þau má til dæmis finna á öllum Norðurlöndunum, í flestum Evrópulöndum og í helstu borgum Bandaríkjanna og Kanada.

Bíó Paradís er samstarfsvettvangur flestra þeirra sem koma að kvikmyndamálum í landinu. Má þar nefna dreifingaraðila kvikmynda (Senu, Græna ljósið, Myndform, Samfilm); Stockfish Kvikmyndahátíð í Reykjavík, Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík, Reykjavik Shorts & Docs, Stuttmyndadaga í Reykjavík; Kvikmyndamiðstöð Íslands (sem er með skrifstofur sínar á annarri hæð hússins) og Kvikmyndaskóla Íslands. Auk þess á bíóið samstarf við ýmiskonar aðra aðila um sýningarhald og aðra kvikmyndatengda viðburði í húsinu.

Stofnaðilar sjálfseignarstofnunarinnar Heimilis kvikmyndanna ses, sem rekur Bíó Paradís, eru fagfélög kvikmyndagerðarmanna (Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna og Samtök kvikmyndaleikstjóra), Félag kvikmyndaunnenda og Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF).

#borginokkar