
Viðey
Í Viðey má upplifa þúsund ára sögu og njóta einstakrar náttúru. Viðey er perla sem ber að gæta og varðveita. Sýnum nærgætni í umgengni við hana svo hægt sé að koma og njóta náttúru hennar aftur og aftur.
Eyjan er afar gróðursæl og var öldum saman talin ein besta bújörð landsins. Þar bjuggu menntamenn og áhrifamenn í íslensku samfélagi og þar sjást enn ummerki túna og hlaðinna garða. Eyjan skiptist í tvo hluta, Heimaey og Vesturey sem tengjast með Eiðinu.
Á austurhluta Heimaeyjar er að finna rústir þorps frá tímum Milljónafélagsins þegar útgerð og mannlíf stóð þar í miklum blóma. Nú standa þar eftir aðeins tvær byggingar og rústir einar sem minna á liðna tíma. Á Heimaey standa ein elstu hús landsins, Viðeyjarkirkja og Viðeyjarstofa sem áður hýstu heldri fjölskyldur en eru nú opin almenningi og þar er einnig rekinn veitingastaður.
Sagan drýpur af hverju strái í Viðey en eyjan er jafnframt útivistasvæði í eigu Reykvíkinga og öllum er velkomið að koma og njóta kyrrðar og náttúru eyjarinnar.