People in red outfits jumping at the same time
  • Heim
  • Unglist - listahátíð ungs fólks

Unglist - listahátíð ungs fólks

Nóvember 2024

Unglist, listahátíð ungs fólks er vettvangur fyrir ungt upprennandi listafólk á aldrinum 16- 25 ára þar sem skáldskapur og myndsköpun fá að flæða frjálst, í takti við tónlistarveislur, óheftan dans, lifandi leiklist og aðra viðburði þar sem sköpunargleðin er í öndvegi. Unglist er hátíð nýrra strauma og fjölbreytileika sem hefur haft að markmiði að hefja menningu ungs fólks á Íslandi til vegs og virðingar. Unglistin hefur allt frá upphafi verið haldin af Hinu Húsinu, miðstöð ungs fólk. Taktu þátt í ævintýrinu þér að kostnaðarlausu og njóttu töfra listarinnar á ókeypis viðburðum Unglistar!

Unglist, listahátíð ungs fólks, hefur verið árviss viðburður á haustdögum í Reykjavík frá árinu 1992.  Hátíðin stendur yfir í rúma viku í hvert sinn með fjölda þátttakenda og njótenda. Það er breytilegt frá ári til árs hvar viðburðirnir á hátíðinni fara fram.  

Dagskráin samanstendur af tónlist, hönnun, tísku, ljósmyndun, myndlist og leiklist svo eitthvað sé nefnt og endurspeglar það sem hefur verið í gangi í listsköpun hjá ungu fólki.

Frítt er inn á alla dagskrárliði hennar og hefur það verið hennar sérstaða. 

Ungt fólk á aldrinum 16-25 ára getur komið með hugmynd og framkvæmt sinn viðburð á hátíðinni.

Saga Hins Hússins

Hitt Húsið var stofnað af Íþrótta- og tómstundaráði  Reykjavíkurborgar 15. nóvember 1991 fyrir ungt fólk á aldrinum 16- 25 ára.

Í fyrstu var Hitt Húsið staðsett í gamla skemmtistaðnum Þórskaffi í Brautarholti.   Þar hófst fjölbreytt starfsemi fyrir ungt fólk á sviði menningar, atvinnumála og skemmtunar.  Strax á fyrsta starfsárinu hófst Unglist – listahátíð ungs fólks sem og opin hús fyrir fötluð ungmenni.  Í húsnæðinu var ennfremur æfingaaðstaða fyrir hljómsveitir og þar voru haldin böll á vegum framhaldsskólanna.

Í ágúst 1995 var starfsemin flutt í gamla Geysishúsið við Aðalstræti. Frá þeim tíma hefur Hitt Húsið þróast enn frekar í menningar- og upplýsingamiðstöð ungs fólks auk þess að starfrækja ýmis úrræði á sviði ráðgjafar, fræðslu og atvinnumála sem og frístundastarf fatlaðra ungmenna.   Í mars 2002 var Hitt Húsið svo enn fært um set, í þetta sinn að Pósthússtræti 3- 5.

Haustið 2015 flutti hluti frístundastarfs fatlaðra upp á Rafstöðvarveg 9, en í janúar 2019 flutti starfsemi Hins Hússins alfarið upp á Rafstöðvarveg  7-9.

 

#borginokkar