.
  • Heim
  • Þjóðminjasafn Íslands

Þjóðminjasafn Íslands

Þjóðminjasafn Íslands er vísinda- og þjónustustofnun í eigu íslenska ríkisins. Því er ætlað að vera miðstöð þjóðminjavörslu og rannsókna á menningarsögulegum minjum í landinu.

Hlutverk Þjóðminjasafnsins er að auka og miðla þekkingu á menningararfi íslensku þjóðarinnar frá upphafi til vorra daga og stuðla að því að sem flestir geti haft gagn og gaman af sögu og minjum lands og þjóðar. Meginhluti safnhússins hýsir grunnsýningu Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu: Þjóð verður til - menning og samfélag í 1200 ár.

Þjóðminjasafnið telst stofnað 24. febrúar 1863. Þann dag færði Jón Árnason stiftsbókavörður stiftsyfirvöldum bréf frá Helga Sigurðssyni á Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi þar sem hann býðst til að gefa Íslandi 15 gripi með þeirri ósk "að þeir verði fyrsti vísir til safns íslenskra fornmenja.” Íslenskir gripir höfðu fram að þessu einkum verið varðveittir í dönskum söfnum. Þórður Jónasson stiftamtmaður og Helgi Thordersen biskup þáðu gjöfina skriflega samdægurs. Þeir fólu Jóni Árnasyni umsjón safnsins en hálfu ári seinna fékk hann að ráða Sigurð Guðmundsson málara sem annan umsjónarmann, en Sigurður hafði fyrstur sett fram hugmynd um stofnun safns af þessum toga.

Safnið var oftast nefnt Forngripasafnið fram til 1911 að það hlaut lögformlega það nafn sem enn gildir. Það var fyrstu áratugina til húsa á ýmsum háaloftum í Reykjavík, í Dómkirkjunni, Tugthúsinu við Skólavörðustíg, Alþingishúsinu og í húsi Landsbanka Íslands við Austurstræti, uns það fékk inni í risi Landsbókasafnsins við Hverfisgötu (nú Safnahúsið) 1908 og var þar í fulla fjóra áratugi. Við stofnun lýðveldis 1944 ákvað Alþingi að reisa safninu eigið hús og var flutt í það um 1950.

Fjöldi gripa í munasafni er um þrjú hundruð þúsund og þeir eru af margvíslegu tagi. Þar má nefna ýmis konar muni úr daglegu lífi fólks, svo sem áhöld og verkfæri, fatnað, skart, rúmábreiður, húsbúnað, ljósfæri og rúmfjalir, kistla, drykkjarhorn og fleiri útskorna gripi. Þá eru varðveittir ýmsir kirkjugripir, eins og altaristöflur, líkneski, prédikunarstólar, höklar, altarisklæði og útdeilingaráhöld. Í safnkostinum eru jafnframt margvíslegar tækniminjar, vélar, bílar og bátar, svo fátt eitt sé nefnt. Stór hluti safnkostsins eru gripir sem fundist hafa í jörðu og, lögum samkvæmt, ber að varðveita í Þjóðminjasafni Íslands.

#borginokkar