Oslóartréið

Tendrun jólatrésins á Austurvelli fyrsta sunnudag í aðventu markar upphaf jólaborgarinnar Reykjavíkur en tréð er sótt í norska lundinn í Heiðmörk. Rúm hálf öld er síðan kveikt var á tréinu í fyrsta skipti og minnir viðburðurinn á áratuga vinasamband Reykjavíkur og Oslóarborgar.

Jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra prýðir jólatréð ár hvert. Í honum sameinast íslenskur menningararfur, hönnun og mikilsvert málefni. Reykjavíkurborg hefur frá upphafi stutt verkefnið en óróar Styrktarfélagsins hafa verið eina skrautið á Oslóartrénu auk jólaljósanna.

Jólaskógurinn í Tjarnarsal ráðhússins opnar í byrjun desember með skemmtilegri dagskrá þar sem búast má við jólasveinum og jólavættum. Tjarnarsalurinn breytist í jólalegan skóg þar sem börnin geta leikið sér.

Jólavættirnar eru svo á vappi víðs vegar um borgina en það eru þau Grýla, Leppalúði, Jólakötturinn, Rauðhöfði, Leiðindaskjóða, Stekkjastaur, Hurðaskellir, Gluggagægir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Stúfur, tvíburarnir Surtla og Sighvatur og Kattarvali. Árlega fer svo fram skemmtilegur fjölskylduleikur sem byggist á því að hafa upp á vættunum og svara léttum og skemmtilegum spurningum um þessa fjölbreyttu jólasveinafjölskyldu. Ratleikurinn er nú snjallvæddur og auðvelt að nálgast hann á safnadu.is en leiknum lýkur 19. desember. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þau sem sigra í leiknum

Nánari upplýsingar á heimasíðu

#borginokkar