People on Nauthólsvík beach

Nauthólsvík

Ylströndin í Nauthólsvík hefur sannarlega fest sig í sessi sem paradís í borgarlandinu sem laðar að jafnt innlenda sem erlenda gesti. Voldugir sjóvarnargarðar loka af fallegt lón þar sem kaldur sjór og heitt vatn renna saman í eitt. Inn fyrir garðana hefur verið dælt gullnum skeljasandi og minna þessar aðstæður meira á strendurnar við sægrænt Miðjarðarhafið en vík í nyrstu höfuðborg heims við Norður-Atlantshafið.

Nauthólsvík- Vin í miðborginni

Skógar Öskjuhlíðar, öldur Fossvogs og flóra Vatnsmýrar mætast  í þeirri útivistarperlu sem liggur í bæjarstæði Nauthóls.  Gamli bærinn er nú löngu vikinn fyrir nútímalegri aðstöðu til sjóbaða, siglinga og útiveru.  Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur starfrækir siglingaklúbbinn Siglunes og Ylströndina í Nauthólsvík.

Bærinn Nauthóll var reistur um árið 1850. Hann var eitt margra nýbýla, sem risu í nágrenni Reykjavíkur á þessum tíma. Hann var hjáleiga frá Skildinganesbænum og stóð við fjölfarinn vegaslóða. Taugaveiki kom upp á bænum í kringum aldamótin 1900 og hann var brenndur. Tóftir hans sjást enn norðan við bílastæðin.

Í síðari heimsstyrjöldinni voru miklar herbúðir og umsvif á vegum setuliðsins umhverfis flugvöllinn. Í Nauthólsvíkinni var aðstaða fyrir sjóflugvélar, sem voru mikilvægar í orrustunni um Atlantshafið. Þar var m.a. norsk flugsveit. Minnisvarði um veru hennar hér stendur vestan þjónustuhúss Ylstrandar.

Sjá meira

#borginokkar