
Hinsegin dagar
8. - 13. ágúst 2023
Á Íslandi héldu lesbíur og hommar í fyrsta sinn út á götur síðasta laugardag í júní 1993 og síðan árið eftir. Hlé varð á þessum hátíðahöldum þar til í júní 1999 þegar haldin var útihátíð að viðstöddum 1500 manns á Ingólfstorgi. Síðan hafa Hinsegin dagar vaxið með ótrúlegum hraða og undanfarin ár hefur hinsegin fólk, fjölskyldur þess og vinir fylkt liði í gleðigöngu um miðborgina og endað með útitónleikum. Í dag eru Hinsegin dagar ein stærsta hátíð landsins með um og yfir hundrað þúsund gesti ár hvert. Hátíðin hefur vaxið úr eins dags hátíð í sex daga menningarhátíð og er enn að vaxa.
Hinsegin dagar í Reykjavík eru sjálfstæð sjálfboðaliðasamtök. Þau halda aðalfund í byrjun árs en milli aðalfunda er félaginu stjórnað af fimm manna stjórn. Hver stjórnarfélagi er kosinn til eins árs í senn samkvæmt lögum félagsins. Stjórnin starfar náið með samstarfsnefnd, en sameiginlegir fundir stjórnar og samstarfsnefndar hefjast að vanda í byrjun sumars og eru haldnir reglulega fram að hátíðinni í ágúst. Allir þeir sem vilja vinna að málefnum hinsegin fólks svo og félagasamtök þeirra eru velkomin til starfa í samstarfsnefnd, en saman vinnur þessi hópur að skipulagningu hátíðarinnar.
Gleðilega Hinsegin daga!
Nánar um hátíðina