• Heim
  • Fréttir
  • Fólk á einhverfurófi boðið velkomið á Fisk & fólk
október 18, 2021

Fólk á einhverfurófi boðið velkomið á Fisk & fólk

Sjóminjasafnið í Reykjavík, Grandagarði 8, miðvikudaginn 20. október kl. 17-18 Fólk á einhverfurófi og einstaklingar með skynúrvinnsluvanda er boðið velkomið á sérstaka opnun í Sjóminjasafninu í Reykjavík.

Þann dag verður dregið úr áreiti á sýningum safnsins. Viðburðurinn er hluti af „Tökum höndum saman“ sem er samstarfsverkefni Borgarsögusafns og Listasafns Reykjavíkur.

Áreiti á grunnsýningu Sjóminjasafnsins „Fiskur og fólk – sjósókn í 150 ár“ er frekar mikið eða svona eins og í fiskvinnslusal yfir hávertíð. Þar er sterk lýsing, stórir veggir þar sem varpað er á myndböndum með háu hljóði, og lykt, m.a. af saltfiski og skreið. Á meðan þessari sérstöku opnun verður slökkt á myndböndum og dregið úr lýsingu.

Gestir eru hvattir til að spjalla við starfsfólk safnsins, spyrja spurninga og eins að deila upplifun sinni af heimsókninni með þeim.

„Tökum höndum saman“ er samstarfsverkefni Borgarsögusafns og Listasafns Reykjavíkur en það hlaut öndvegisstyrk frá Safnasjóði. Verkefnið miðar að því að auka aðgengi fólks að báðum söfnum og bjóða alla gesti velkomna, líka þá sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með að koma í söfnin eða finna sig ekki þar.

Sýningin „Fiskur & fólk - sjósókn í 150 ár“ fjallar um sögu fiskveiða á Íslandi, frá því árabátar viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000. Þessi margslungna saga er sögð frá sjónarhóli stærsta útgerðarbæjar landsins, Reykjavíkur. Sýningin er bæði fræðandi og skemmtileg fyrir alla aldurshópa.

Aðgangur á þessa sérstöku opnun er ókeypis og öll eru velkomin á meðan húsrúm og gildandi fjöldatakmarkanir leyfa.

Viðburðurinn er unninn í samstarfi við Einhverfusamtökin.

#borginokkar