FJALLKONAN 2012

Fjallkona árið 2012 var Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir en ávarp fjallkonunnar var eftir Pétur Gunnarsson.

Ávarp fjallkonu

það var í árdaga

kapphlaupið yfir hnöttinn var hafið
leitin að allsnægtalandinu
eilífðarlandinu
landinu þar sem aldrei væri hungur
aldrei dauði

yfir illuklif
gljúfraþil
fúafen og svörtuskóga
öræfi, ólgandi höf
allt til enda veraldar

allsstaðar voru spor eftir fót
allsstaðar ummerki um menn
utan hér
umlukin fjarskanum
eyjan
ein í firrðinni
allsnægtalandið
eilífðarlandið

kafið í gróðri
iðandi af fugli
morandi í fiski
matarkista í miðju hafinu
spúandi eldfjöll
sjóðandi hverir
háfleygir jöklar
himinbláminn

aðrar þjóðir þurftu að berjast um hvern skika
þú fékkst að sitja ein að þínu
aðrar þjóðir voru herleiddar
öryggið var ykkar hlutskipti

vetrarríkið breyttist í stofuhita
bæjarlækurinn í ljós og orku
ógrynnin voru þín
hið ómælda kom í þinn hlut
eilífðin í stundaglasi
en getur þjóð dáið úr þrasi?

það var í árdaga
það er í dag
allsnægtalandið
eilífðarlandið

 

#borginokkar