FJALLKONAN 2004

Brynhildur Guðjónsdóttir var fjallkona 2004 og flutti hún ljóðið Vorvísur, 17. júní 1911, eftir Hannes Hafstein.

Ávarp fjallkonu

Vorvísur

Sjá roðann á hnjúkunum háu!
Nú hlýnar um strönd og dal,
nú birtir í býlunum lágu,
nú bráðna fannir í jöklasal.
Allar elfur vaxa,
og öldunum kvikum hossa.
Þar sindrar á sægengna laxa,
er sækja í bratta fossa.
Fjallató og gerði gróa,
grund og mói skipta lit.
Út um sjóinn sólblik gróa,
syngur lóa´ í bjarkarþyt

Hér sumrar svo seint á stundum!
Þótt sólin hækki sinn gang,
þá spretta´ekki laufin í lundum
né lifna blómin um foldarvang,
því næturfrost og nepjur
oft nýgræðinginn fella -
sem hugans kul og krepjur
oft kjark og vonir hrella.
Allt í einu geislar geysast,
guðs vors lands þá skerst í leik,
þeyrinn hlýnar, þokur leysast,
þróast blóm og laufgast eik.

Nú skrýðist í skrúðklæði landið
og skartar sem best það má.
Allt loftið er ljóðum blandið
og ljósálfar dansa grundunum á.
Gleymt er gömlum meinum
og gleymt er vetrar stríði.
Menn muna eftir einum
sem aldrei fyrnist lýði.
Þó að áföll ýmiss konar
ella sundri og veiki þrótt -
minning hans: Jóns Sigurðssonar
safnar allri frónskri drótt.

Sjá! óskmögur Íslands var borinn
á Íslands vorgróðurstund,
hans von er í blænum á vorin,
hans vilji´og starf er í gróandi lund.
Hann kom, er þrautin þunga
stóð þjóðlífs fyrir vori,
hann varð þess vorið unga
með vöxt í hverju spori.
Hundrað ára vor hans vekur
vonir nú um Íslands byggð,
nepjusúld og sundrung hrekur,
safnar lýð í dáð og tryggð.

 

#borginokkar