• Heim
  • Tendrun Friðarsúlunnar

Tendrun Friðarsúlunnar

9. október

Ár hvert er Friðarsúlan í Viðey tendruð á afmælisdegi John Lennons, 9. október og lýsir hún upp kvöldhimininn til og með 8. desember en þann dag lést Lennon árið 1980. Þar að auki er Friðarsúlan tendruð frá vetrarsólstöðum til nýárs, í eina viku í kringum vorjafndægur og á sérstökum hátíðardögum sem listamaðurinn Yoko Ono og Reykjavíkurborg koma sér saman um.

Friðarsúlan er hugarfóstur myndlistarmannsins, tónlistarmannsins og friðarsinnans Yoko Ono og er hugsuð sem leiðarljós fyrir heimsfrið.

Verkið er í formi „óskabrunns“, en upp úr honum stígur há og mikil ljóssúla. Orðin „Hugsa sér frið“ eru grafin í brunninn á 24 tungumálum. Ljóssúlan er samansett úr mismunandi geislum sem sameinast í einu sterku ljósi. Sex ljósgeislanna fara lárétt um göng á palli í kringum brunninn og er endurkastað upp á við með speglum. Þéttleiki ljóssins, sem stafar frá súlunni, er háður sífelldum breytingum á ögnum í andrúmsloftinu sem hegða sér í takt við þá margbreytilegu veðráttu sem einkennir Ísland.

 

#borginokkar