Sumarborgin Reykjavík

Borgarráð hefur samþykkt að efla miðborgina sem áfangastað í sumar. Tilgangurinn er að styðja við atvinnulíf á svæðinu en ekki síður að bjóða upp á lifandi mannlíf og menningu fyrir alla. Viðburðum verður fjölgað og borgarrými verða lífguð við og endurgerð.

Miðborgin sérstaklega markaðssett sem áfangastaður

Miðborgin hefur verið vinsæll áfangastaður erlendra ferðamanna síðustu ár en vegna COVID-19 eru aðstæður gjörbreyttar.

„Nýjar aðstæður kalla á nýjar áskoranir og nú er tækifæri til að endurhugsa hátíðir og viðburði borgarinnar  og prófa eitthvað alveg nýtt. Við sjáum fyrir okkur að sumarborgin verði full af sköpun, list, mannlífi og menningu sem vonandi gleður borgarbúa og gesti hennar næstu mánuði. Jafnframt hefur verið ákveðið að markaðssetja miðborgina sérstaklega gagnvart borgarbúum og landsmönnum öllum í sumar og styðja þar með enn frekar við rekstraraðila í miðborginni,“ segir Arna Schram, sviðstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar.

50 milljóna króna viðbótarframlag

Gert er ráð fyrir að stór hluti fjármögnunar verði tekinn úr römmum umhverfis- og skipulagssviðs og menningar- og ferðamálasviðs og vinnuframlag verði frá starfsfólki sviðanna. Til viðbótar samþykkti borgarráð 50 milljóna króna aukaframlag vegna Sumarborgarinnar 2020 í dag.

Enn fremur samþykkti borgarráð að veita íbúaráðum borgarinnar 30 milljónir króna til úthlutun verkefna sem hafa það að markmiði að efla hverfisanda, mannlíf og menningu í öllum hverfum borgarinnar í sumar.

Hátíðum og viðburðum dreift yfir sumarið

Allt fyrirkomulag mun að sjálfsögðu taka mið af tilmælum ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis. Stórar hátíðir geta eins og gefur að skilja ekki verið með hefðbundnu sniði í sumar og verður viðburðum og hátíðum því dreift yfir lengri tíma.

Áhersla verður lögð á góða umhirðu svo borgin taki græn og blómstrandi á móti gestum á öllum aldri frá morgni til kvölds. Markmiðið er að gera sumarið eftirminnilegt og skemmtilegt fyrir alla aldurshópa.

Blómlegt sumar

„Í miðborginni eru frábærar verslanir og veitingastaðir með fjölbreyttum görðum og borgarrýmum. Ég hlakka til sjá miðborgina lifna við enn frekar og bjóða öllum aldurhópum í heimsókn en borgarrýmin okkar geta nýst á svo margan hátt.  Ég vonast til þess að rekstraraðilar komi í samstarf með okkur og færi reksturinn út og notfæri sér göturýmið. Við sjáum fyrir okkur að borgin verði blómleg sem aldrei fyrr,“ segir Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, en það er ekki aðeins mannlífið sem verður blómlegt heldur er starfsfólk sviðsins búið að sá fyrir fjölda blóma sem eiga eftir að prýða borgina í sumar.

Gert verður viðburðardagatal fyrir miðborgina og það kynnt borgarbúum þannig að auðvelt verði að velja sér viðburði og uppákomur eftir áhugasviði.

Farið verður í samstarf við fólk og fyrirtæki. Borgin mun lifna við í samvinnu við listafólk og hönnuði, plötusnúða og tónlistarfólk, leikhúsfólk og sirkuslistamenn, rithöfunda og líkamsræktarstöðvar svo möguleg dæmi séu tekin. Unnið verður að nánari hugmyndum og útfærslum með hagaðilum.

Verkefnisstjórn þvert á svið borgarinnar stýrir verkefninu en verkefnisstjóri Sumarborgarinnar 2020 er Björg Jónsdóttir auk Sæunnar Óskar Unnsteinsdóttur verkefnisstjóra Miðborgar.

 

​​

#borginokkar