Art gallery in Iceland
  • Heim
  • Nýlistasafnið

Nýlistasafnið

Nýlistasafnið var stofnað árið 1978 af breiðum hópi myndlistamanna sem sumir hverjir höfðu verið meðlimir í SÚM og aðrir voru enn við nám. Nýlistasafnið er listamannarekið safn og sýningarrými með það að markmiði að varðveita og sýna samtímalist og vera vettvangur fyrir tilraunir og alþjóðlega umræðu um myndlist.

Margar sýningar í Nýlistasafninu hafa markað tímamót í íslenskri myndlistarsögu og það er ljóst að stofnun Nýlistasafnsins ýtti við opinberum söfnum og flýtti fyrir framþróun innan íslenska listaheimsins. Í sögu Nýlistasafnsins hefur starfsemi þess oft verið umdeild og sýningar og uppákomur hafa á tímum vakið hörð viðbrögð og deilur. Ætla má að Nýlistasafnið hafi átt mikinn þátt í að opna augu almennings fyrir afstæðri fagurfræði samtímalistar og breyttum viðfangsefnum myndlistarmanna í samtímanum.

Árið 2010 hlaut Nýlistasafnið íslensku safnaverðlaunin.

Markmið Nýlistasafnsins eru að vera miðstöð nýrra strauma og tilrauna í myndlist, efla hugmyndafræðilega umræðu um samtímalist og vera vettvangur fyrir unga myndlistarmenn. Það gegnir einnig almennum skyldum listasafns um söfnun og miðlun, safnar og varðveitir listaverk eftir velunnara safnsins og leitast við að styrkja stöðu sína sem helsta samtímalistastofnun landsins.

Nýlistasafnið eða Nýló eins og safnið er nefnt í daglegu tali, var stofnað árið 1978 af hópi listamanna og er því eitt elsta safn og sýningarrými í Evrópu í umsjón listamanna. Nýlistasafnið hefur verið einn helsti vettvangur fyrir samtímalist á Íslandi og á einstakt safn verka eftir íslenska og alþjóðlega listamenn frá sjötta áratug síðustu aldar og fram til dagsins í dag.

Sýningarhald Nýlistasafnsins hófst í byrjun níunda áratugarins og hafa margar sýningar markað tímamörk í íslenskri listasögu. Á hverju ári stendur safnið fyrir öflugri sýningardagskrá auk þess að vera vettvangur ýmissa viðburða, safnfræðslu og rannsókna, í náinni samvinnu við listamenn, sýningarstjóra, fræðimenn og almenning.

Í safneign Nýlistasafnsins eru yfir 2.200 verk sem gefin hafa verið af listamönnum, fulltrúum, söfnurum og einstaklingum sem tengjast safninu. Í dag endurspeglar safneign Nýló helstu hreyfingar í samtímalistinni og áhuga safnsins á því að spyrja og svara spurningum líðandi stundar.

Sjá meira

#borginokkar