Vísað í náttúru: verk úr safneign Hafnarborgar

Strandgata 34, 220 Hafnarfjörður

Dagsetningar
Hafnarborg – menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar
05, nóvember 2022 - 30, desember 2022 (sjá dagatal fyrir aðrar dagsetningar)
Opið frá: 12.00 - 17.00

Vefsíða https://hafnarborg.is
Aðgangseyrir Sjá á opinberri vefsíðu

Grjóthnullungar í frosnu vatni, fjall sem speglast í lygnu hafi, snjór sem fellur af himni og leggst á jörð, mosi, þúfur og eldgígar, tært vatn í djúpri gjá, leikur ljóss og skugga, strönd, flóð og fjara.

***

Sýningardagskrá Hafnarborgar undanfarin ár hefur um margt einkennst af sýningum sem skírskota á einn eða annan hátt til náttúrunnar, í tengslum við loftslagsbreytingar og stöðu mannsins í síbreytilegum heimi. Síðustu ár hafa sömuleiðis einkennst af miklum breytingum í dagskrá safna um heim allan, þar sem reglulega hefur þurft að slá sýningum og viðburðum á frest og laga sig að nýjum aðstæðum. Þá eru nú liðin nærri tvö ár frá því að síðast gafst tækifæri til að sýna verk úr safneign Hafnarborgar og deila hluta af safnkostinum með gestum, sem er vissulega mikilvægur hluti af starfsemi hvers safns.

Í safneign Hafnarborgar má finna fjölda verka sem vísa ýmist til eða í náttúruna en á sýningunni getur að líta úrval slíkra verka, með áherslu á áferðarmikil verk, lífræn form og aflíðandi línur. Sýnd eru jafnt tvívíð sem þrívíð verk – lágmyndir sem ljósmyndir, málverk, textíl- og leirlistaverk – en til að byrja með var útgangspunktur sýningarinnar „skúlptúrar úr safneign“. Það er eigi að síður teygjanlegt hvað megi telja skúlptúr og hafa listamenn og listfræðingar þanið hugtakið í tímans rás, svo það má jafnvel segja að ýmis verk á pappír eða striga hafi einkenni skúlptúra – ef horft er á þau á ákveðinn hátt.

Verkin spanna tímabilið frá tíunda áratug síðustu aldar til dagsins í dag (með einni undantekningu frá sjöunda áratugnum) og segja má að hvert um sig varpi þau ljósi á náttúruna í meðförum ólíkra myndlistarmanna – en uppruni listsköpunar er oft sagður vera tilraun mannsins til að líkja eftir náttúrunni. Undir niðri má svo jafnvel skynja ákveðna togstreitu í verkunum, þar sem túlkun og birtingarmyndir náttúrunnar færast til skiptis nær og fjær hlutveruleikanum, í botnlausri hringiðu nýrra hugmynda. Þá verða verkin ef til vill tákn um innri náttúru manneskjunnar, ekki síður en heiminn í kringum okkur.

Sýnd eru verk eftir listamennina Auði Vésteinsdóttur, Daniel Reuter, Eddu Jónsdóttur, Eirík Smith, Hallgerði Hallgrímsdóttur, Guðjón Ketilsson, Guðmund Thoroddsen, Guðnýju Magnúsdóttur, Gurli Elbækgaard, Jónu Guðvarðardóttur, Jónínu Guðnadóttur, Koggu, Margréti Sveinsdóttur, Nínu Óskarsdóttur og Stefán Jónsson.

Sýningarstjóri er Hólmar Hólm.

Svipaðir viðburðir

Reykjavík ... the story continues│ Aðalstræti 10
J.S. Bach á þriðjudagskvöldum 20:00 - 20:30

#borginokkar