Orgelhátíð barnanna

Hallgrímstorg 1, 101 Reykjavík

Dagsetningar
Hallgrímskirkja, Reykjavík
01, október 2022
Opið frá: 12.00 - 12.30

Vefsíða https://www.hallgrimskirkja.is/is/dagatal/dagatal-listi/orgelhatid-barnanna
Aðgangseyrir Sjá á opinberri vefsíðu

Orgeltónleikar fyrir alla fjölskylduna. Leikin verða frægustu orgelverk sögunnar ásamt þekktum lögum úr kvikmyndum og Eurovision slagarar.
Ókeypis er á orgelhátíðina og allir eru velkomnir, stórir sem smáir.

Guðný Einarsdóttir stundaði píanónám frá unga aldri og lauk hún prófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, orgelnámi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar og framhaldsnámi í kirkjutónlist frá Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Samhliða náminu var hún stjórnandi og einn af stofnendum kammerkórsins Stöku. Að loknu námi í Kaupmannahöfn var Guðný organisti danska safnaðarins í París en samhliða starfinu stundaði hún framhaldsnám í orgelleik.
Guðný hefur komið fram á Íslandi og erlendis sem einleikari, meðleikari og kórstjóri og stundað kennslu í orgel- og píanóleik. Hún hefur gefið út tvo geisladiska með orgelverkum, annar þeirra, orgelverk Jóns Nordal, var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Guðný samdi söguna Lítil saga úr orgelhúsi sem er tónlistarævintýri fyrir börn um undraheima pípuorgelsins. Hún hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir ýmis félagasamtök og Þjóðkirkjuna og
setið í ýmsum nefndum m.a. Sálmabókarnefnd Þjóðkirkjunnar. Hún gegnir nú stöðu organista við Háteigskirkju í Reykjavík og er stjórnandi Kordíu, Kórs Háteigskirkju.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, Tónlistarskólanum í Reykjavík, við Tónskóla þjóðkirkjunnar og í Konunglega danska
tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Þaðan lauk hún meistaraprófi í kirkjutónlist undir handleiðslu prof. Bine Bryndorf. Í námi sínu lagði hún sérstaka áherslu á barnakórstjórn, tónlistaruppeldi barna og kenningar um tónlistarþroska barna. Hún heldur reglulega tónlistarnámskeið fyrir foreldra ungbarna og kennir börnum orgelsmíði í verkefninu Orgelkrakkar.
Sigrún hefur starfað sem organisti og kórstjóri í Reykjavík, í Kaupmannahöfn og á Akureyri. Sigrún starfar nú sem organisti við Akureyrarkirkju og við Möðruvallaklausturskirkju í
Hörgárdal ásamt því að kenna við Tónlistarskólann á Akureyri og Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Hún hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og erlendis bæði sem einleikari, meðleikari og kórstjóri og hefur haldið námskeið og fyrirlestra í tónlist. Sigrún situr í stjórn félags íslenskra organista, FÍO, og er verkefnastjóri Sumartónleika í Akureyrarkirkju. Hún hefur einnig verið listrænn stjórnandi Tónlistarfélags Akureyrar, setið í undirbúningsnefnd fyrir Norrænt kirkjutónlistarmót í Reykjavík árið 2012, og var framkvæmdastjóri Kirkjulistaviku í Akureyrarkirkju árin 2009-2017.
Sigrún fékk úthlutað listamannalaunum frá íslenska ríkinu árin 2016 og 2022.

Orgelkrakkahátíð í Reykjavík:

Dagana 25. september til 1. október verður haldin Orgelkrakkahátíð í Reykjavík. Hátíðin hefst með fjölskylduguðsþjónustu í Háteigskirkju sunnudaginn 25. september kl. 11. Dagana á eftir verður 2. bekk í öllum grunnskólum Reykjavíkur boðið á sýninguna Lítil saga úr orgelhúsi í þremur mismunandi kirkjum, Fella- og Hólakirkju, Grafarvogskirkju og Hallgrímskirkju.
Hátíðinni lýkur í Hallgrímskirkju 1. október með tónleikum fyrir alla fjölskylduna kl. 12. Þar verða leikin frægustu orgelverk sögunnar ásamt þekktum lögum úr kvikmyndum og Eurovision slagarar. Eftir tónleikana verður boðið upp á orgelkrakkasmiðjur þar sem þátttakendum gefst kostur á að smíða lítið orgel og fá að lokum að prófa að spila á það. Skráning á orgelkrakkasmiðjur fer fram á hallgrimskirkja.is.
Ókeypis er á alla auglýsta viðburði Orgelkrakkahátíðar í Reykjavík og allir hjartanlega velkomnir!
Nánari upplýsingar er að finna á facebook.com/orgelkrakkar

Svipaðir viðburðir

Reykjavík ... the story continues│ Aðalstræti 10
uppreisn

#borginokkar