Árbæjarsafn 65 ára - kíkt á bakvið tjöldin

Kistuhylur 4, 110 Reykjavík

Dagsetningar
Árbæjarsafn
14, ágúst 2022
Opið frá: 13.00 - 16.00

Aðgangseyrir Sjá á opinberri vefsíðu

Árbæjarsafn 14. ágúst kl. 13-16

Árbæjarsafn er 65 ára um þessar mundir og verður haldið upp á þau tímamót sunnudaginn 14. ágúst með skemmtilegri og fræðandi dagskrá á safninu. Öll eru hjartanlega velkomin og að sjálfsögðu verður ókeypis aðgangur.

Hinn 11. ágúst 1957 var fáni dreginn að húni við Árbæjarsafn í fyrsta sinn til marks um að gestir væru boðnir velkomnir í safnið. Árbær á sér langa og merka sögu en bærinn hefur löngum verið vinsæll áningarstaður. Óhætt er að segja að Árbæjarsafn skipar sérstakan sess í hugum íbúa borgarinnar og gesta hennar enda er safnið sannkölluð vin í borgarlandslaginu þar sem fólk á öllum aldri getur upplifað stemninguna í Reykjavík eins og hún var í gamla daga.

Í tilefni af afmælinu munu sérfræðingar safnsins vera til skrafs og ráðgerða og uppfræða gesti um allt það góða starf sem unnið er á safninu. Gestir geta kíkt inn í varðveisluhús safnsins og séð hvernig búið er um gripi fyrir komandi kynslóðir, kynnt sér vinnu er að snýr að minjavörslu og fornleifum í borgarlandinu og verndun eldri húsa. Þá verður einnig vakin athygli á fræðslustarfi safnsins og hvernig safnhúsin eru útbúin fyrir sýningar.

Á safninu má einnig finna landnámshænurnar og í haga eru hestar, kindur og lömb. í Dillonshúsi er heitt á könnunni og heimabakað góðgæti. Hillur Krambúðarinnar eru stútfullar af sælgæti og í safnbúðinni fæst gómsætur ís.

Dagskráin stendur frá kl. 13-16 en safnið er opið frá kl. 10-17.

Árbæjarsafn er hluti af Borgarsögusafni: Eitt safn á fimm frábærum stöðum.

///

Aðgengi: Gangstígar á safnsvæðinu eru flestir sléttir malarstígar en sums staðar eru hellulagðar stéttir. Leiðsöguhundar eru velkomnir í safnið.

Strætisvagnar, leiðir 12 og 24, stoppa á Höfðabakka, rétt við safnið. Leið 16 stoppar við Streng (5 mín. gangur) og leið 5 við Rofabæ (6 mín. gangur).

Svipaðir viðburðir

Reykjavík ... the story continues│ Aðalstræti 10
J.S. Bach á þriðjudagskvöldum 20:00 - 20:30

#borginokkar