Nánd

Austurbakki 2, 101 Reykjavík

Dagsetningar
Harpa
29, janúar 2022 - 06, mars 2022 (sjá dagatal fyrir aðrar dagsetningar)
Opið frá: 15.00 - 16.00

Vefsíða https://www.darkmusicdays.is/en/sigurgeir
Aðgangseyrir Sjá á opinberri vefsíðu

Sellóleikarinn Sigurgeir Agnarsson flytur verk eftir frændurna Hafliða Hallgrímsson og Huga Guðmundsson. M.a. verður frumflutt nýtt verk eftir Hafliða, Solitaire II, sem hann samdi sérstaklega fyrir Sigurgeir.

Efnisskrá:
Hafliði Hallgrímsson
Solitaire op.1 (1970/1991)
1. Oration - Largo
2. Serenade - Andante
3. Nocturne - Larghetto
4. Dirge - Largo
5. Jig - Allegro
Hugi Guðmundsson
Alluvium (2015)
Hugi Guðmundsson
Veris (2020)
Halfiði Hallgrímsson
Solitaire II op. 58 (1974/2020-2021) - frumflutningur
1. Lamento - Largo
2. Circum - Allegro
3. Intersessio - Largo
4. Perpetuum Mobile - Allegro

Sigurgeir Agnarsson var árið 2017 skipaður í stöðu leiðara sellódeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en hafði á undan gegnt stöðu aðstoðarleiðara frá árinu 2003. Auk starfa sinna fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur Sigurgeir víða komið við í íslensku tónlistarlífi sem flytjandi, kennari og skipuleggjandi ýmissa tónlistarviðburða.
Sigurgeir hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands í sellókonsertum Schumanns, Haydn (C og D dúr), Beethoven þríkonsertinum og Brahms tvíkonsertinum. Auk þess hefur hann leikið einleik með Kammersveit Reykjavíkur, Blásarasveit Reykjavíkur og Bochumer Symphoniker. Sigurgeir hefur komið fram á ýmsum tónlistarhátíðum, bæði heima og erlendis, m.a. Listahátíð í Reykjavík, Reykjavik Midsummer Music og Oulunsalo hátíðinni í Finnlandi. Sigurgeir var tilnefndur sem flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2014 ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur fyrir heildarflutning á verkum L.v. Beethoven fyrir selló og píanó á þrennum tónleikum á Listahátíð í Reykjavík sama ár.
Sigurgeir hefur kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík, síðar Menntaskóla í tónlist, frá árinu 2003. Sigurgeir er einn af stofnendum Alþjóðlegu tónlistarakademíunnar í Hörpu og situr jafnframt í stjórn akademíunnar. Á árunum 2013 til 2020 gegndi Sigurgeir stöðu listræns stjórnenda Reykholtshátíðar í Borgarfirði.
Sigurgeir hóf nám á selló hjá Gunnari Kvaran við Tónlistarskóla Garðabæjar árið 1984, þá átta ára gamall. Hann lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1995 og hélt til frekara náms við New England Conservatory of Music í Boston og síðar við Robert Schumann tónlistarháskólann í Düsseldorf.
Sigurgeir hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands sem og Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sigurgeir sat um margra ára skeið í stjórn Hjólreiðasambands Íslands og var árið 2018 gerður að heiðursfélaga sambandsins fyrir störf sín í þágu hjólreiðaíþróttarinnar.

Um tónskáldin:
Hafliði Hallgrímsson hefur átt óvenjulega fjölbreyttan og viðburðaríkan feril bæði sem sellóleikari og tónskáld. Hann stundaði nám sem sellóleikari í Tónlistarskólanum í Reykjavík og lauk þaðan burtfaraprófi 1962. Ári seinna sótti hann tíma hjá Enrico Mainardi í Rómaborg. Hann var meðlimur í Sinfóníuhljómsveit Íslands veturinn 1963-64 en fór síðan til London og innritaðist í Royal Academy of Music þar sem hann lauk burtfararprófi 1967, og vann Madame Suggia verðlaunin fyrir sellóleik. Hafliði kom fyrst fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands 1966, og 1971 debúteraði hann í Wigmore Hall í London með einleikstónleikum við góðar undirtektir gagnrýnanda. Árið 1967 bauðst honum staða í Haydn strengja tríóinu og varð hann fljótlega uppfrá því eftirsóttur sem þáttakandi í vel þekktum kammerhópum og kammerhljómsveitum í London, m.a. English Chamber Orchestra, Menuhin Festival Orchestra og Monteverdi Orchestra. Hann fór í tvö heimsferðalög sem stóðu yfir í sex vikur hvert, bæði með English Chamber Orchestra undir stjórn Daniel Barenboim, og Menuhin Festival Orchestra undir stjórn Yehudi Menuhin, og kom alls fram sem sellóleikari og meðlimur í margslags kammerhópum og kammersveitum í 45 löndum. Hafliði hefur allan sinn feril tekið þátt í flutningi á nýrri tónlist, og var um árabil meðlimur í The New Music Group of Scotland og Icelandic Canadian Ensemble.
Árið 1977 tók hann við stöðu sem fyrsti sellóleikari í Scottish Chamber Orchestra, sem starfaði á þeim árum með miklum blóma og lék árlega á Edinborgarhátíðinni og var þrisvar sinnum staðarhljómsveit á Festivalinu í Aix en Provence. Árið 1982 sagði hann upp stöðu sinni sem sellóleikari í S.C.O., til að helga sig svo til eingöngu tónsmíðum, sem hann hafði stundað með sellóleiknum alveg frá unglingsárum. Hann stofnaði Mondrian Tríóið í Edinborg sem lék aðallega í Skotlandi og hafði fasta tónleikaseríu í Queen´s Hall í Edinborg í nokkur ár. Hafliði stundaði nám í tónsmíðum hjá Elizabeth Luthyens, Dr. Alan Bush og Sir Peter Maxwell Davies. Tónsmíðar hans hafa verið leiknar víða um heim og nema nú rúmlega 100 talsins. Hann hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir tónverk sín, m.a. fyrstu verðlaun í alþjóða tónlistarkeppninni á Ítalíu sem kennd er við Viotti, önnur verðlaun í alþjóða tónlistarkeppninni í Póllandi sem kennd er við Wieniawski, og 1986 voru honum veitt Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir fiðlukonsertinn Poemi. Hann er Associate of Royal Academy of Music í London, og árið 2002 vann hann til Nesta Fellowship sem er fjögurra ára styrkur og veittur af Menntamálaráði ensku ríkisstjórnarinnar. Hann hefur þar að auki verið staðartónskáld Sinfóníuhhljómsveitar Íslands tvisvar sinnum.

Hugi Guðmundsson (1977) nam tónsmíðar og raftónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík, Konunglegu tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn og Sonology stofnunina í Den Haag.
Hugi hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlaun fyrir list sína og má þar nefna íslensku tónlistarverðlaunin fjórum sinnum, Kraumsverðlaunin, þrjár heiðurstilnefningar á alþjóðlega tónskáldaþinginu og fyrstu verðlaun í tónsmíðakeppni Norrænna músíkdaga í Finnlandi 2013.
Hugi hlaut Bjartsýnisverðlaunin árið 2014 og það ár hlaut hann einnig hæsta styrk sem veittur er af danska ríkinu til tónskálda en hann er í formi þriggja ára starfslauna. Aðeins eitt tónskáld úr hverjum tónlistargeira hlýtur þennan styrk ár hvert.
Stærsta verk Huga til þessa er óperan Hamlet in absentia en fyrir hana hlaut hann íslensku tónlistarverðlaunin 2016 og var tilnefnd til fjölda annara verðlauna, meðal annars Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2018. Af öðrum lykilverkum má nefna BOX, konsert fyrir harmónikku og lírukassa og barnaóperuna Dóm völvunnar sem flutt hefur verið yfir 70 sinnum í fjórum löndum. Að lokum má nefna óratoríuna The Gospel of Mary sem verður frumflutt í Osló 2022 og síðar sama ár í Danmörku og á Íslandi.

Svipaðir viðburðir

J.S. Bach á þriðjudagskvöldum 20:00 - 20:30
Reykjavík ... the story continues│ Aðalstræti 10

#borginokkar