Hugleiðing um hús: Hnitbjörg með Pétri Ármanns á alþjóðlegum safnadegi

Hallgrímstorg 3, 101 Reykjavík

Dagsetningar
Listasafn Einars Jónssonar
18, maí 2021
Opið frá: 12.10 - 12.50

Vefsíða http://www.lej.is
Aðgangseyrir Sjá á opinberri vefsíðu

Í tilefni af alþjóðlegum safnadegi, þriðjudaginn 18. maí, býður Listasafn Einars Jónssonar til hugleiðingar um húsið í hádeginu. Þá mun Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands, segja frá sögu safnbyggingar Listasafns Einars Jónssonar á Skólavörðuholti. Pétur hefur rannsakað, skrifað og fjallað um arkitektúr á Íslandi um áratuga skeið og miðlar sínum mikla fróðleik af áhuga þannig að auðvelt er að hrífast með.

Safnbygging LEJ, sem einnig er þekkt sem Hnitbjörg, er um margt merkileg. Húsið var byggt á árunum 1916-1920 og var meðal fyrstu steinsteyptu húsanna sem reist voru í Reykjavík á 20. öld og fyrsta byggingin á Skólavörðuholti, ef frá er talin Skólavarðan. Arkitektúr hússins er einstakur en húsið var byggt eftir teikningu Einars Jónssonar myndhöggvara, með aðstoð Einars Erlendssonar, og því oft sagt að það sé í raun stærsti skúlptúr listamannsins.

Í dag er húsið alfriðað sem setur starfseminni oft áhugaverðar skorður. En til stendur að reisa viðbyggingu við safnið á allra næstu árum sem á eftir að auka möguleika safnsins til framtíðar sem á einmitt vel við þema Safnadagsins í ár sem er Framtíð safna – Uppbygging og nýjar áherslur.

Viðburðurinn hefst í höggmyndagarðinum við Listasafn Einars Jónssonar kl. 12:10 og stendur til kl. 12:50. Gestum býðst svo að skoða safnið á eigin vegum að viðburði loknum.

Í tilefni af Safnadeginum er frítt á viðburðinn og inn á safnið allan daginn. Öll velkomin.

Svipaðir viðburðir

Reykjavík ... the story continues│ Aðalstræti 10
J.S. Bach á þriðjudagskvöldum 20:00 - 20:30

#borginokkar