• Heim
  • Mýrin bókmenntahátíð

Mýrin bókmenntahátíð

Næst í október 2025

Fyrsta barna- og unglingabókmenntahátíðin sem kennd er við Vatnsmýrina var haldin í Reykjavík haustið 2001. Hátíðin tókst mjög vel og fljótlega ákváðu þeir sem að henni stóðu að efna til annarrar hátíðar með það fyrir augum að barnabókmenntahátíð gæti orðið að tvíæringi – hátíð sem haldin yrði annað hvert ár og þá sem mótvægi við Alþjóðlega bókmenntahátíð í Reykjavík.

Á hátíðina er rithöfundum, myndhöfundum og fræðimönnum boðið, innlendum og erlendum sem kynna verk sín með upplestrum, vinnustofum, þátttöku í málstofum, viðtölum og sýningum. Áhersla er lögð á Norrænar barna- og unglingabókmenntir og lestrargleði og sköpun höfð að leiðarljósi. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að hátíðin væri með alþjóðlegu sniði og boðið á hana höfundum og fræðimönnum m.a. frá Norðurlöndum, Englandi, Þýskalandi, Frakklandi, Eystrasaltslöndum, Bandaríkjunum og Kanada. 

Stjórn Mýrarinnar – félags um barnabókmenntahátíð skipa fulltrúar frá Norræna húsinu, Borgarbókasafni, Rithöfundasambandi Íslands, SÍUNG, IBBY á Íslandi og Háskóla Íslands. Á Mýrinni er dagskrá fyrir börn, unglinga, fjölskyldur, fræðifólk, bókasafnsfræðinga, kennara, útgefendur og alla sem hafa áhuga á barna- og unglingabókmenntum.

Hátíðirnar eru jafnan kenndar við Vatnsmýrina og það þema sem valið er hverju sinni. Þær voru haldnar undir yfirskriftunum: Köttur úti í mýri (2001), Galdur úti í mýri (2004), Krakkar úti í mýri (2006), Draugar úti í mýri (2008), Myndir úti í mýri (2010), Matur úti í mýri (2012), Páfugl úti í mýri (2014) og Úti í mýri (2016) og Úti í Mýri – Norðrið (2018). Tíunda hátíðin Saman úti í Mýri mun fara fram dagana 8.-11. október 2020. 

Félagið sem stendur að hátíðinni heitir Mýrin – félag um barnabókmenntahátíð og eftirtaldar stofnanir og samtök mynda félagið: IBBY á Íslandi,  SÍUNG (Samtök barna- og unglingabókahöfunda) Rithöfundasamband Íslands, Háskóli Íslands, Borgarbókasafn Reykjavíkur og Norræna húsið.

Mýrarhátíðarnar byggja á fjölbreyttri dagskrá með þátttöku höfunda og fræðimanna, innlendra og erlendra. Meðal atriða má nefna:

  • upplestrar og kynningar í Norrræna húsinu
  • fyrirlestrar höfunda og höfundaspjall
  • pallborðsumræður og fyrirlestrar bókmenntafræðinga
  • sýningar og vinnustofur
  • önnur menningardagskrá í samræmi við þema hverju sinni

Nánari upplýsingar hér

 

#borginokkar