• Heim
  • Menningarborgin

Menningarborgin

Af nógu er að taka í höfuðborginni fyrir áhugafólk um listir og menningu. Í Reykjavík er að finna meira en 60 söfn, sýningarstaði og gallerí, auk tónleikastaða og leik- og bíóhúsa. Sköpunarkraftur bæði innlendra og erlendra listamanna er í hávegum hafður auk þess sem sögu lands og þjóðar er gert hátt undir höfði. Hátíðir eins Listahátíð, Reykjavík Fringe, RIFF, Menningarnótt, Bókmenntahátíð og Barnamenningarhátíð setja einnig mark sitt á borgarlífið á meðan þær standa yfir. 

Gestkomandi í Reykjavík geta kynnt sér sögu lands og borgar á Borgarsögusafni Reykjavíkur en undir þeim hatti eru Árbæjarsafn, Landnámssýningin, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Sjóminjasafnið í Reykjavík og Viðey. Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækið listasafn en það er til húsa á þremur stöðum, í Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og Ásmundarsafni og aðgangsmiðinn gildir fyrir öll húsin í sólarhring. Síðan er tilvalið að hlaða niður smáforritinu Útilistaverk í Reykjavík til að fræðast á einfaldan og skemmtilegan hátt um list í almannarými um leið og ferðast er um borgina. Á Þjóðminjasafninu er hægt að kynna sér sögu Íslands og þjóðhætti frá landnámi en einnig er vert að vekja athygli á sýningunni Sjónarhorni í Safnahúsinu á Hverfisgötu sem tekst á við íslenskan myndheim. Perlan er einnig skemmtilegur útsýnis- og áfangastaður en þar er í boði að fræðast um ýmis náttúrufyrirbrigði svo sem Látrabjarg, veröldina neðansjávar og jökla.

Reykjavík ber stolt titilinn Bókmenntaborg UNESCO sem hún hlaut árið 2011. Fyrir áhugafólk um bókmenntir mælum við með heimsókn í Gröndalshús, á bókasöfn borgarinnar og að leggja upp í bókmenntagöngu, en hægt er að sérpanta göngur fyrir hópa. Það má líka slást í hópinn í sumarkvöldgöngu eða hlaða niður smáforriti með rafrænum bókmenntagöngum á íslensku, ensku, spænsku og þýsku. Reykjavík er og hefur verið vettvangur bókmennta og skálda frá upphafi og Bókmenntaborgin hefur gert mörgum þessara slóða skil með bókmenntamerkingum í borgarlandinu. Það er líka hægt að tylla sér á skáldabekki á völdum stöðum og hlusta á upplestur skálda og leikara. Ekki má svo gleyma Bókmenntahátíð í Reykjavík, barnabókmenntahátíðinni Mýrinni og bókabúðum borgarinnar sem selja bæði gamlar og nýjar gersemar.

Teaserboxes
Árbæjarsafn
Árbæjarsafn er útisafn sem er opið allan ársins hring. Þar er safn gamalla húsa sem flest hafa verið flutt á safnsvæðið úr miðbæ Reykjavíkur. Svæðið skiptist í torg, þorp og sveit og gefur góða mynd af umhverfi og bæjarbrag í Reykjavík á 19. og 20. öld.
Landnámssýningin
Landnámssýningin byggir á kenningum fræðimanna um það sem fornleifar í Reykjavík geta sagt okkur um líf og störf þeirra sem fyrst settust hér að. Þungamiðjan er rúst skála frá 10.
Sjóminjasafnið í Reykjavík
Hlutverk Sjóminjasafnsins er að safna og miðla sögu og minjum tengdum sjó og sjómennsku, einkum þeim sem gildi hafa fyrir sögu Reykjavíkur.
Þjóðminjasafn Íslands
.

Þjóðminjasafn Íslands er vísinda- og þjónustustofnun í eigu íslenska ríkisins. Því er ætlað að vera miðstöð þjóðminjavörslu og rannsókna á menningarsögulegum minjum í landinu.

Viðey

Viðey er afar gróðursæl og var öldum saman talin ein besta bújörð landsins. Þar bjuggu menntamenn og áhrifamenn í íslensku samfélagi og þar sjást enn ummerki túna og hlaðinna garða.

Pönksafn Íslands

Pönksafnið heiðrar tónlist og tíðaranda sem hefur mótað tónlistarmenn og hljómsveitir til dagsins í dag, fólk sem þorði að vera öðruvísi.

Listasafn Íslands

Listasafn Íslands er þjóðlistasafn og leggur megináherslu á 19. og 20. aldar list, íslenska og erlenda. Það á merkasta safn íslenskra verka hér á landi og eftir alla helstu myndlistarmenn þjóðarinnar. 

Listasafn Einars Jónssonar

Listasafn Einars Jónssonar var fyrsta listasafnsbyggingin sem reist var hér á landi  og markaði bygging þess upphaf byggðar á Skólavörðuholti í Reykjavík.

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar hýsir höggmyndir og teikningar eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara ásamt heimildum um listamanninn og er miðstöð rannsókna á list hans.

Borgarbókasafnið Kringlunni

Við bjóðum upp á notalega aðstöðu í fallegu húsnæði. Börn og unglingar eiga sinn eigin stað í safninu og þeir sem eldri eru tylla sér gjarnan út við fallegu gluggana, kíkja í nýjustu blöðin og bækurnar og sötra kaffi í leiðinni.

Borgarbókasafnið Árbæ

Í boði er fjölbreytt úrval af bókum, tímaritum og öðrum safnkosti og við erum að sjálfsögðu boðin og búin að aðstoða við val og leit að efni.

Borgarbókasafnið Gerðubergi

Í Gerðubergi er umfangsmikil starfsemi; bókasafn, fjölbreytt viðburða- og sýningahald, salaleiga, kaffihús og félagsstarf. Bókasafnið er afar bjart og rúmgott. Þar er frábær aðstaða fyrir alla aldurshópa og mjög gott úrval af bókum, tímaritum og öðrum safnkosti, bæði á íslensku og erlendum tungumálum. 

Borgarbókasafnið Grófinni

Í boði er fjölbreytt úrval af bókum, tímaritum og öðrum safnkosti og við erum að sjálfsögðu boðin og búin að aðstoða við val og leit að efni.

Borgarbókasafnið Spönginni

Bókasafnið í Spönginni er nýjasta safn Borgarbókasafnsins. Sýningarhaldið í Spönginni er blómlegt og við bjóðum að auki upp á spennandi viðburðadagskrá fyrir alla aldurshópa; tónleika, fyrirlestra, smiðjur og ýmislegt fleira!

Borgarbókasafnið Sólheimum

Menningarhúsið Sólheimum er fyrsta húsnæði Borgarbókasafnsins sem strax í upphafi var hannað og byggt með þarfir bókasafns í huga. Safnið í Sólheimum er lítið og vinalegt, rétt rúmir 200 fermetrar, og vel sótt af íbúum hverfisins.

#borginokkar