
Menningarborgin
Af nógu er að taka í höfuðborginni fyrir áhugafólk um listir og menningu. Í Reykjavík er að finna meira en 60 söfn, sýningarstaði og gallerí, auk tónleikastaða og leik- og bíóhúsa. Sköpunarkraftur bæði innlendra og erlendra listamanna er í hávegum hafður auk þess sem sögu lands og þjóðar er gert hátt undir höfði. Hátíðir eins Listahátíð, Reykjavík Fringe, RIFF, Menningarnótt, Bókmenntahátíð og Barnamenningarhátíð setja einnig mark sitt á borgarlífið á meðan þær standa yfir.
Gestkomandi í Reykjavík geta kynnt sér sögu lands og borgar á Borgarsögusafni Reykjavíkur en undir þeim hatti eru Árbæjarsafn, Landnámssýningin, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Sjóminjasafnið í Reykjavík og Viðey. Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækið listasafn en það er til húsa á þremur stöðum, í Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og Ásmundarsafni og aðgangsmiðinn gildir fyrir öll húsin í sólarhring. Síðan er tilvalið að hlaða niður smáforritinu Útilistaverk í Reykjavík til að fræðast á einfaldan og skemmtilegan hátt um list í almannarými um leið og ferðast er um borgina. Á Þjóðminjasafninu er hægt að kynna sér sögu Íslands og þjóðhætti frá landnámi en einnig er vert að vekja athygli á sýningunni Sjónarhorni í Safnahúsinu á Hverfisgötu sem tekst á við íslenskan myndheim. Perlan er einnig skemmtilegur útsýnis- og áfangastaður en þar er í boði að fræðast um ýmis náttúrufyrirbrigði svo sem Látrabjarg, veröldina neðansjávar og jökla.
Reykjavík ber stolt titilinn Bókmenntaborg UNESCO sem hún hlaut árið 2011. Fyrir áhugafólk um bókmenntir mælum við með heimsókn í Gröndalshús, á bókasöfn borgarinnar og að leggja upp í bókmenntagöngu, en hægt er að sérpanta göngur fyrir hópa. Það má líka slást í hópinn í sumarkvöldgöngu eða hlaða niður smáforriti með rafrænum bókmenntagöngum á íslensku, ensku, spænsku og þýsku. Reykjavík er og hefur verið vettvangur bókmennta og skálda frá upphafi og Bókmenntaborgin hefur gert mörgum þessara slóða skil með bókmenntamerkingum í borgarlandinu. Það er líka hægt að tylla sér á skáldabekki á völdum stöðum og hlusta á upplestur skálda og leikara. Ekki má svo gleyma Bókmenntahátíð í Reykjavík, barnabókmenntahátíðinni Mýrinni og bókabúðum borgarinnar sem selja bæði gamlar og nýjar gersemar.