Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Ljósmyndasafn Reykjavíkur er miðstöð ljósmynda þar sem fortíðin og nútíminn mætast. Markmið safnsins er að varðveita, safna og sýna bæði sögulega og samtímaljósmyndun í listrænu, félags- og menningarlegu samhengi.

Í Ljósmyndasafni Reykjavíkur eru nú varðveittar um 6 milljónir ljósmynda af ýmsum stærðum og gerðum. Elstu myndirnar eru frá því um 1860 og þær yngstu frá 2014. Myndefnið er fjölbreytt og má þar m.a. nefna mannamyndir teknar á ljósmyndastofum, blaða-, iðnaðar- og auglýsingaljósmyndir atvinnumanna og landslags- og fjölskyldumyndir áhugaljósmyndara. Ljósmyndasafn Reykjavíkur setur upp á annan tug sýninga ár hvert. Markmiðið er að kynna íslenska ljósmyndara, sýna verk úr safneign sem og að sýna verk erlendra ljósmyndara. Sýningarrýmin eru þrjú, Skotið í anddyri safnsins, aðalsalurinn og Kubburinn, sem hýsir sýningar á stafrænu formi.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur leggur stund á og stuðlar að rannsóknum á ljósmyndun á öllum sviðum, svo sem ljósmyndasögu, listfræði og forvörslu svo nokkuð sé nefnt. Boðið er upp á fræðslu fyrir öll skólastig sem og sérhópa um sögu ljósmyndarinnar s.s tækniþróun og ljósmyndina sem listgrein og heimild. Á safninu er starfrækt myndvinnsla sem annast vinnslu á myndum fyrir safnið og viðskiptavini. Safnið veitir almenningi, fyrirtækjum og stofnunum Reykjavíkurborgar ráðgjöf og þjónustu á sviði ljósmyndavarðveislu.

Sjá meira

#borginokkar