• Heim
  • Listasafn Sigurjóns Ólafssonar

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar hýsir höggmyndir og teikningar eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara ásamt heimildum um listamanninn og er miðstöð rannsókna á list hans. Safnið var stofnað af Birgittu Spur, ekkju listamannsins árið 1984 og var rekið sem sjálfseignarstofnun til ársins 2012, en er nú deild innan Listasafns Íslands.  Frá 1. des­ember 2021 er safnið rekið af rekstrar­félag­inu Grímu ehf, undir for­ystu að­stand­enda Sigur­jóns.

Auk þess að kynna list Sigurjóns býður safnið upp á sýningar á verkum annarra listamanna og yfir sumartímann eru vikulega haldnir tónleikar sem skipa fastan sess í menningarlífi Reykjavíkurborgar.

Sigurjón Ólafsson fæddist á Eyrar­bakka árið 1908. Fyrstu til­sögn í mynd­list hlaut hann hjá Ás­grími Jóns­syni list­málara og síðar Ein­ari Jóns­syni mynd­högg­vara. Sam­hliða list­nám­inu lauk Sigur­jón sveins­prófi í húsa­mál­un frá Iðn­skól­an­um í Reykja­vík vor­ið 1927 og ári síðar sigldi hann til Kaup­manna­hafn­ar, þar sem hann hóf nám í Kon­ung­legu Aka­demí­unni hjá prófess­or Utzon-Frank. Námið sótt­ist honum vel og haust­ið 1930 hlaut hann gull­verð­laun Aka­demí­unnar fyrir styttu af Verka­manni, sem nú er í eigu Lista­safns Ís­lands. Sigur­jón hlaut skjót­an frama er­lend­is, og eftir náms­dvöl í Róma­borg 1931−32 og loka­próf frá Aka­demí­unni ár­ið 1935 var hann tal­inn meðal efni­leg­ustu mynd­höggv­ara yngri kyn­slóð­ar­inn­ar í Dan­mörku.

Þegar Sigur­jón sneri heim að loknu stríði varð hann meðal braut­ryðjenda ab­strakt­list­ar á Ís­landi. Auk þess var hann tal­inn einn helsti port­rett­lista­mað­ur sinn­ar sam­tíðar. Á langri starfs­ævi var Sigur­jóni fal­ið að gera fjölda opin­berra verka og í Reykja­vík eru eft­ir hann á ann­an tug úti­lista­verka og vegg­skreyt­inga. Stærst verka hans er án efa lág­mynd­irnar á stöðvar­húsi Búr­fells­virkj­un­ar sem hann vann á ár­un­um 1966−69, en þekkt­ari eru ef til vill Önd­vegis­súl­urn­ar við Höfða og Íslands­merki á Haga­torgi.

Sjá meira

#borginokkar