Listasafn Íslands - National Art Gallery of Iceland
  • Heim
  • Listasafn Íslands

Listasafn Íslands

Listasafn Íslands er þjóðlistasafn og leggur megináherslu á 19. og 20. aldar list, íslenska og erlenda. Það á merkasta safn íslenskra verka hér á landi og eftir alla helstu myndlistarmenn þjóðarinnar. Það hefur einnig að geyma vaxandi safn erlendra verka eftir heimskunna listamenn.

Listasafn Íslands heldur að staðaldri fjölbreyttar sýningar sem endurspegla listaverkaeign þess. Auk þess efnir það árlega til víðtækra sérsýninga á verkum íslenskra sem erlendra listamanna. Í tengslum við þær eru gefin út ítarleg og vönduð rit. 

Í safnbyggingunum að Fríkirkjuvegi 7 eru nokkrir sýningarsalir á þremur hæðum, safnbúð og kaffistofa.Í skrifstofubyggingunni að Laufásvegi 12 er sérfræðibókasafn með heimilda- og ljósmyndasafni og forvörsludeild.

Árið 1987 fluttist safnið að Fríkirkjuvegi 7. Aðalbyggingin var reist sem íshús árið 1916 eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar (1887-1950) en nýbyggingin er verk Garðars Halldórssonar (f. 1942), húsameistara ríkisins.

Listasafnið var sjálfstæð stofnun frá 1884 til 1916 er Alþingi ákvað að gera það að deild í Þjóðminjasafni Íslands. Með lögum um Menntamálaráð 1928 var safnið síðan sett beint undir stjórn ráðsins.

Verk safnsins voru til sýnis í Alþingishúsinu frá 1885 til 1950 þegar það fluttist í Safnahúsið við Suðurgötu sem það deildi með Þjóðminjasafni Íslands. Listasafnið var formlega opnað þar 1951 og hlaut fullt sjálfstæði að lögum árið 1961.

Sjá meira

#borginokkar