• Heim
  • Listasafn Einars Jónssonar

Listasafn Einars Jónssonar

Árið 1909 bauð Einar Jónsson íslensku þjóðinni öll verk sín að gjöf með því skilyrði að Landssjóður kostaði flutning þeirra til landsins og annaðist varðveislu þeirra. Beiðninni var ekki sinnt en árið 1914 endurtók Einar boð sitt með sömu skilyrðum og áður. Í það skipti var boð hans samþykkt og um haustið kom hann ásamt Önnu Jörgensen unnustu sinni til Íslands frá Kaupmannahöfn. Hann hóf undirbúning byggingar safnsins og var í fyrstu boðin lóðin sem Þjóðleikhúsið stendur á við Hverfisgötu sem hann taldi of þrönga fyrir safnið og sá framtíðarlóð fyrir það á Skólavörðuholti sem þá var óbyggt. Í fyrstu leitaði hann til Guðjóns Samúelssonar nema í byggingarlist en þeir sáu báðir safnið fyrir sér á Skólavörðuholti ásamt öðrum opinberum byggingum, svo sem söfnum, háskóla og kirkju. Í húsinu skyldi vera sýningarsalur og vinnustofa sem og íbúð listamannsins og eiginkonu hans.

Það slitnaði upp úr samstarfi Einars og Guðjóns og til liðs við sig við hönnun hússins fékk Einar nafna sinn Einar Erlendsson, aðstoðarmann Rögnvalds Ólafssonar byggingarráðunautar heimstjórnarinnar, og saman undirituðu þeir nafnar uppdrætti að safnhúsi í júní 1916.

Listasafn Einars Jónssonar var fyrsta listasafnsbyggingin sem reist var hér á landi  og markaði bygging þess upphaf byggðar á Skólavörðuholti í Reykjavík. Safnið var eina listasafnið sem opið var almenningi þar til Listasafn Íslands var opnað í safnahúsinu við Suðurgötu í Reykjavík sumarið 1951.

Eftir að safnið opnaði sýndi hann verk sínu einungis þar enda var aðstaða til listsýningahalds hér á landi bágborin framan af.

Sjá meira á heimasíðu safnsins

#borginokkar