Laugardalur valley on a sunny day
  • Heim
  • Laugardalurinn

Laugardalurinn

Laugardalurinn er án efa vinsælasta útivistarsvæði Reykvíkinga enda er svæðið einstaklega heppilegt fyrir útiveru, skjólgott og gróðursælt með vel skipulagða göngu- og hjólastíga. 

Laugardalurinn er jafnframt ein meginmiðstöð íþróttaiðkunar í Reykjavík og er þar að finna íþróttamannvirki svo sem Laugardalshöllina, Laugardalsvöllinn, Laugardalslaugina og Skautahöll Reykjavíkur. Þá er Laugardalurinn miðstöð garðyrkju og er Grasagarður Reykjavíkur í hjarta dalsins.

Fjölskyldu- og Húsdýragarðurinn í Laugardal er vinsæll meðal barna og fjölskyldufólks og er þar að finna öll íslensku húsdýrin og helstu villtu landspendýrin svo sem refir og hreindýr auk selanna sívinsælu.

Í Laugardalnum er jarðhiti, einkum við Þvottalaugarnar þar sem Reykvíkingar þvoðu þvott sinn áður fyrr í heitum jarðlaugum. Þá er aðaltjaldstæði Reykjavíkur í Laugardal og dalurinn því vinsæll viðkomustaður ferðalanga.

Í júlímánuði stendur gestum Grasagarðsins og Fjölskyldu- og húsdýragarðsins til boða að taka þátt í lífveruleit í lífríki Laugardalsins.

Alls konar lífverur, dýr, plöntur og sveppir hafa valið Laugardalinn sem sín heimkynni. Þá er átt við þær lífverur sem eru þar á eigin vegum, ekki plönturnar sem eru ræktaðar í Grasagarðinum eða húsdýrin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Þetta eru t.d. þrestirnir í trjánum, ánamaðkarnir í moldinni, hunangsflugurnar sem suða í blómabeðunum, fíflarnir sem vaxa upp úr stéttinni og svo framvegis. Það opnast fyrir manni heill heimur þegar grannt er skoðað. Alls staðar finnur lífið sér pláss.

Til að taka þátt í lífveruleitinni má nálgast fróðleiksspjöld, annað hvort í afgreiðslu Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, eða í anddyri garðskálans í Grasagarðinum. Spyrjið starfsfólkið ef þið finnið ekki spjöldin. Á spjöldunum eru nokkur einföld verkefni/viðfangsefni þar sem þátttakendur eru hvattir til að leita að ákveðnum gerðum lífvera og velta fyrir sér nokkrum áhugaverðum spurningum. Verkefnin henta fólki á öllum aldri.

Lífveruleitin er samstarfsverkefni Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, Grasagarðs Reykjavíkur og Reykjavík-iðandi af lífi en hið síðastnefnda er sérstakt fræðsluátak um líffræðilega fjölbreytni í borginni.

 

Grasagarðurinn
A bridge in the botanical garden

Grasagarður Reykjavíkur er lifandi safn undir berum himni. Í garðinum eru varðveittir um 5000 safngripir af um 3000 tegundum.

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn setur svip sinn á Laugardalinn og hefur notið síaukinna vinsælda. Í garðinum eru fleiri dýr en margan grunar. Íslensk húsdýr, villt íslensk spendýr, fuglar og framandi dýr frá ýmsum heimshornum.

Skautahöllin
.

Skautahöllin er mikið mannvirki, rúmlega 3.700 fermetrar að stærð, þar af er sjálft svellið 1.800 fermetrar. Skautahöllin tekur allt að 1.000 manns í sæti.

Teaserboxes
Listasafn Reykjavíkur - Ásmundarsafn
Ásmundur var einn af frumkvöðlum höggmyndalistar hér á landi og hannaði bygginguna að mestu leyti sjálfur á árunum 1942-1959.
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar hýsir höggmyndir og teikningar eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara ásamt heimildum um listamanninn og er miðstöð rannsókna á list hans.
Sólheimar library
Borgarbókasafnið | Menningarhús Sólheimum
Þú verður ekki einmana í safninu í Sólheimum. Safnið er lítið og vinalegt og nándin mikil og er það vel sótt af íbúum hverfisins og öðrum.
Laugardalslaug

Árið 1958 var hafist handa við að byggja Laugardalslaugina rétt sunnan við Sundlaugaveg. Sundlaugin var tekin í notkun 1. júní 1968. 

Kaffi Flóra

Flóran er einstök útaf staðsetningu og hráefni sem vex í bakgarði Flórunnar, umhverfið í Laugardalnum gefur gestum Flórunnar möguleika á að komast frá ysi og þysi borgarinnar án þess að fara úr borginn. 

#borginokkar