
Laugardalurinn
Laugardalurinn er án efa vinsælasta útivistarsvæði Reykvíkinga enda er svæðið einstaklega heppilegt fyrir útiveru, skjólgott og gróðursælt með vel skipulagða göngu- og hjólastíga.
Laugardalurinn er jafnframt ein meginmiðstöð íþróttaiðkunar í Reykjavík og er þar að finna íþróttamannvirki svo sem Laugardalshöllina, Laugardalsvöllinn, Laugardalslaugina og Skautahöll Reykjavíkur. Þá er Laugardalurinn miðstöð garðyrkju og er Grasagarður Reykjavíkur í hjarta dalsins.
Fjölskyldu- og Húsdýragarðurinn í Laugardal er vinsæll meðal barna og fjölskyldufólks og er þar að finna öll íslensku húsdýrin og helstu villtu landspendýrin svo sem refir og hreindýr auk selanna sívinsælu.
Í Laugardalnum er jarðhiti, einkum við Þvottalaugarnar þar sem Reykvíkingar þvoðu þvott sinn áður fyrr í heitum jarðlaugum. Þá er aðaltjaldstæði Reykjavíkur í Laugardal og dalurinn því vinsæll viðkomustaður ferðalanga.
Í júlímánuði stendur gestum Grasagarðsins og Fjölskyldu- og húsdýragarðsins til boða að taka þátt í lífveruleit í lífríki Laugardalsins.
Alls konar lífverur, dýr, plöntur og sveppir hafa valið Laugardalinn sem sín heimkynni. Þá er átt við þær lífverur sem eru þar á eigin vegum, ekki plönturnar sem eru ræktaðar í Grasagarðinum eða húsdýrin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Þetta eru t.d. þrestirnir í trjánum, ánamaðkarnir í moldinni, hunangsflugurnar sem suða í blómabeðunum, fíflarnir sem vaxa upp úr stéttinni og svo framvegis. Það opnast fyrir manni heill heimur þegar grannt er skoðað. Alls staðar finnur lífið sér pláss.
Til að taka þátt í lífveruleitinni má nálgast fróðleiksspjöld, annað hvort í afgreiðslu Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, eða í anddyri garðskálans í Grasagarðinum. Spyrjið starfsfólkið ef þið finnið ekki spjöldin. Á spjöldunum eru nokkur einföld verkefni/viðfangsefni þar sem þátttakendur eru hvattir til að leita að ákveðnum gerðum lífvera og velta fyrir sér nokkrum áhugaverðum spurningum. Verkefnin henta fólki á öllum aldri.
Lífveruleitin er samstarfsverkefni Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, Grasagarðs Reykjavíkur og Reykjavík-iðandi af lífi en hið síðastnefnda er sérstakt fræðsluátak um líffræðilega fjölbreytni í borginni.