Skip to main content

Jólavættir


Jólavættaleikur Reykjavíkurborgar hefst 3. desember og venju samkvæmt er þá13 jólavætti að finna víðs vegar um borgina. 

Jólavættaleiknum er ætlað að hvetja borgarbúa og aðra gesti til að njóta miðborgarinnar á aðventunni. Jafnframt því er verið að upphefja íslenska sagnahefð og tengja íbúa borgarinnar við gesti hennar í gegnum samtöl og sögur. Gunnar Karlsson myndlistarmaður teiknaði vættirnar sem hafa lífgað upp á miðborgina á aðventunni frá árinu 2011.

Leppalúði, Leiðindaskjóða, Stekkjastaur, Jólakötturinn og fleiri furðuverur verða búnar að koma sér fyrir á húsveggjum víða í miðbænum í desember og úr verður skemmtilegur ratleikur fyrir alla fjölskylduna.  Þátttakan felst í því að leita uppi vættirnar og svara laufléttum spurningum um þær.

Dregið verður úr svarseðlum 21. desember og vegleg verðlaun í boði fyrir þrjá heppna þátttakendur sem eru með öll svör rétt. 

Stekkjarstaur

Stekkjarstaur er stirður í skapi, stífur í háttum og ákaflega íhaldssamur. Sumir segja að hann stundi jóga á laun, en það hefur aldrei fengist staðfest.

Gluggagægir

Gluggagægir

Gluggagægir er forvitnastur bræðra sinna og er haldinn gægjufikn á háu stigi. Hann hefur margoft verið handtekinn fyrir ósæmilega hegðun - og einu sinnifyrir alþjóðanjósnir, þegar hann gægðist inn á jólaball danska sendiráðsins.

Bjúgnakrækir

Bjúgnakrækir

Fáir eru jafn hrifnir af unnum, þjóðlegum kjötvörum og Bjúgnakrækir. Hann hefur margsinnis lagt það til, í ræðu og riti, að soðin bjúgu með uppstúf verði gerð að þjóðarrétti Íslendinga.

Skyrgámur

Skyrgámur

Af jólasveinunum er Skyrgámur duglegastur að klára matinn sinn. Hann er sólginn í hvers kyns mjólkurvörur og þá einkum skyr. Hann hefur dálæti á nýjungum í skyrmenningu, sér í lagi svonefndum skyrdrykkjum.

Stúfur

Stúfur

Stúfur er, eins og margoft hefur komið fram, minnstur jólasveinanna. Hann hefur gert margt til að virka stærri, m.a. gengið á upphækkuðum skóm og ítrekað fengið sér svonefnt afró.

Hurðaskellir

Hurðaskellir

Hurðaskellir er uppstökkastur bræðra sinna. Hann er óvenju hörund- og tapsár, spéhræddur og móðgunargjarn og á það til að rjúka burt í fússi af minnsta tilefni. Oftar en ekki skellir hann þá á eftir sér hurðum af öllu afli.

Jólakötturinn

Jólakötturinn

Jólakötturinn er óvenju stór af heimilisketti að vera, enda er hann af norskum ættum, eins og flestar íslenskar óvættir. Hann er óumdeilanlega með mikla og góða matarlyst, einkum og sér í lagi á óþægum börnum.

Leiðindaskjóða

Leiðindaskjóða

Leiðindaskjóða er litla systir jólasveinanna og er allt annað en leiðinleg. Hún þekkist á gríðastórri skjóðu sem hún dröslar með sér. Hún safnar leiðindum, veseni og amstri sem safnast upp á aðventunni - og fjarlægir það fyrir jólin.

Leppalúði

Leppalúði

Leppalúði er seinni eiginmaður Grýlu og er fáeinum öldum yngri en hún. Hann er furðu viðkunnanlegur, af uppgjafa mannætu að vera, en á það til að gleymast heima þegar fjölskyldan heldur til byggða á aðventunni.

Grýla

Grýla

Grýla er viðskotaill skessa af virðulegri og ævafornri jöklatröllaætt. Hún hefur óbeit á jólunum og því er það kaldhæðnislegt að allir synir hennar hafa lagt fyrir sig starf jólasveinsins, en ekki orðið læknar eða flugumferðastjórar, eins og hún óskaði sér.

Rauðhöfði

Rauðhöfði

Rauðhöfði er stór og mikill hvalur með fagurrautt höfuð, sem fyrr á öldum grandaði skipum og lét öllum illum látum úti á rúmsjó. Hann var um árabil vistaður í Hvalvatni - og mátti dúsa þar í refsingarskyni, þar til illhvelishátturinn rann af honum.

Sighvatur & Surtla

Surtla & Sighvatur

Surtla og Sighvatur eru tvíburar og yngstu börn Grýlu. Þau eru augasteinar jólasveinanna sem æfa sig allt árið á að gleðja þau og gefa þeim í skóinn. Þau geta því verið ansi heimtufrek og óstýrilát — og eiginlega bara óþolandi, einkum fyrir jólin. En sem betur fer eru þau næstum alltaf sofandi.

Kattarvali

Einn af gömlu sveinunum sem ekki komust
í 13 manna úrtakið á sínum tíma. Hann er
mikill dýravinur og elskar ketti. Notar hvert
tækifæri til að grípa þá á rófunni og knúsa
litlu skinnin í kaf.

Þórálfur

Er ný jólavætt sem hefur bæst við jólafjölskylduna. Hann er afar reglusamur og ákveðinn, enda sér hann um allar sóttvarnir í helli jólasveinanna. Hann á það til að skella sér óvænt til byggða á aðventunni til að næla sér í nauðsynjar og þá er eins gott að passa vel upp á sprittbrúsana sína og grímurnar.