• Heim
  • Hvað er Höfuðborgarstofa?

Hvað er Höfuðborgarstofa?

Höfuðborgarstofa tók til starfa í ársbyrjun 2003 og heyrir undir Menningar og ferðamálasvið Reykjavíkurborgar. Stofan ber ábyrgð á heildarkynningu Reykjavíkur á sviði ferðamála innanlands og utan. Vöxtur í ferðaþjónustu hefur verið mikill undanfarin ár og hefur stofan unnið stöðugt og markvisst að því að skilgreina sóknarfæri og styrkleika Reykjavíkur á sviði ferðamála, m.a. með því að samþætta nýsköpun, vöruþróun, markaðssetningu og stjórnun ferðamála.

Árið 2020 færði okkur nýjar áskoranir og er það hlutverk Höfuðborgarstofu að vakta og greina ástandið á sviði ferðamála í höfuðborginni, ásamt því að vinna að og halda utan um framkvæmd á markaðsátaki fyrir áfangastaðinn.

Höfuðborgarstofa hefur frumkvæði að því að skilgreina samstarfsfleti á sviði ferðamála milli stofnana Reykjavíkurborgar, stjórnvalda, sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, markaðsstofa um allt land, aðila í ferðaþjónustu, íbúa og annarra hagsmunaaðila. Markmiðið er að samhæfa aðgerðir, útfæra leiðir í samvinnu, efla upplýsingaveitu til íbúa og ferðamanna, styrkja og þróa innviði í borginni og auka nýsköpun á sviði ferðamála í Reykjavík.

Stofan leiðir einnig samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um markaðssetningu á svæðinu gagnvart erlendum ferðamönnum undir sameiginlegu vörumerki Reykjavíkur.

Leiðarljós

Leiðarljós Höfuðborgarstofu er að Reykjavík sé eftirsóttur áfangastaður allt árið um kring. Svæðið er kynnt á öflugan hátt þannig að íbúar og gestir fái notið þeirrar menningar, afþreyingar, upplifunar og þjónustu sem í boði er. Í því samhengi er sérstaða borgarinnar dregin fram, þ.e. sem einstakrar, lifandi og framsækinnar menningarborgar, umvafinni einstakri náttúru.

Ferðaþjónustan kemur inn á flest svið samfélagsins og því er afar mikilvægt að eiga samráð og samtal við íbúa, ferðaþjónustuna, stofnanir, fyrirtæki og aðra sem koma að ferðamálum hér á landi.

Meginmarkmið

  • Styrkja stöðu Reykjavíkur sem höfuðborgar landsins í alþjóðlegri samkeppni á sviði ferðamála.
  • Gera Reykjavík að eftirsóttum áfangastað fyrir ferðamenn allt árið um kring til hagsbóta fyrir íbúa, atvinnulíf og gesti höfuðborgarinnar.
  • Stuðla að því að gestir Reykjavíkur fái framúrskarandi móttökur, góða þjónustu og jákvæða upplifun.
  • Rækta hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar gagnvart landinu öllu, m.a. með traustri miðlun upplýsinga um Ísland til ferðamanna.
  • Stuðla að aukinni fagmennsku og gæðum í upplýsingamiðlun til ferðamanna um Reykjavík og Ísland.
  • Auka vægi ráðstefnuhalds og menningar í ferðamennsku í Reykjavík.
  • Virkja stjórnsýslu, stofnanir og fyrirtæki borgarinnar og aðra hagsmunaaðila til samstarfs um eflingu Reykjavíkur sem áfangastaðar.
  • Efla langtíma samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á vettvangi viðburða og ferðaþjónustu og auka þannig samlegð og styrk svæðisins í alþjóðlegri samkeppni.
  • Skilgreina ákveðin markaðssvæði á höfuðborgarsvæðinu og markaðssetja með það að leiðarljósi að efla áfangastaðinn, fjölga gistinóttum, auka arðsemi ferðaþjónustunnar og dreifa álagi.

 

Starfsemi Höfuðborgarstofu byggir á Ferðamálastefnu Reykjavíkur.

 

#borginokkar