• Heim
  • Fréttir
  • Tónlistarsmiðja fyrir fjölskyldur í Landnámssýningunni
nóvember 18, 2021

Tónlistarsmiðja fyrir fjölskyldur í Landnámssýningunni

Sunnudaginn 21. nóvember kl. 13-15. Athugið skráning er nauðsynleg!

Sviðslistahópurinn Trigger Warning býður upp á vinnustofuna BRUM þar sem fjölskyldum gefst kostur á að skapa tónlist innblásna af náttúrunni. Farið verður út í náttúruna á hljóðveiðar og til að afla efniviðs í hljóðfæri. Í kjölfarið verður haldið í listasmiðju þar sem búin verða til grafísk tónlistarskor með vatnslitum og sett verða saman allskonar hljóðfæri. Í lokin gera krakkarnir tilraunir til að leika á hljóðfærin eftir tónsmíðunum.

Námskeiðið leiða Andrea Vilhjálmsdóttir og Kara Hergils, sviðslistakonur og Ragnheiður Erla Björnsdóttir, tónsmiður. Hópurinn byggir námskeiðið á aðferðum sínum við gerð sviðslistaverksins BRUM sem var sýnt á hátíðinni Plöntutíð í byrjun september bæði 2020-21.

Þátttaka er ókeypis fyrir börn að 17 ára aldri, menningarkortshafa og öryrkja. Aðrir gestir greiða 1.800 kr. sem gildir jafnframt á sýninguna.

Vinsamlegast athugið að vegna sóttvarna er aðeins rými fyrir 25 þátttakendur. Skráning fer fram í síma 411-6370. Öll Velkomin!

Smiðjan er hluti af viðburðaröðinni Fjölskylduhelgar sem er á dagskrá Sjóminjasafnsins og Landnámssýningarinnar veturinn 2021-2022. En þá geta fjölskyldur tekið þátt í allskonar skapandi, notalegum og oft ævintýralegum viðburðum.

#borginokkar