Ljósmyndasýning
janúar 16, 2023

Ný sýning í Ljósmyndasafni Reykjavíkur

Sýningin Nálægð samanstendur af þremur ljósmyndaröðum sem spanna 25 ára tímabil og varpa í sameiningu ólíku ljósi á hugtakið nálægð í íslensku samhengi.

Ég hef komið reglulega til Íslands allt frá árinu 1983, þegar við Álfheiður giftumst. Í þessum heimsóknum hef ég oft dvalist hjá fjölskyldu hennar í heimahúsum ýmist í Reykjavík eða Eyjafirði. Álfheiður flutti frá Íslandi sem barn eftir skilnað foreldra sinna og hugsar oft með ljúfsárum söknuði til þessara litlu atriða í heimilislífinu sem við minnumst öll með hlýju. Þegar ég sat við eldhúsglugga tengdamömmu og virti fyrir mér birtubrigðin opnaðist þessi heimur líka upp fyrir mér. Ég byrjaði að taka ljósmyndir innandyra án fólks, til að fanga þessar hverfulu tilfinningar.

Ég tók líka portrettmyndir, sem eru sumar hverjar af íbúum þessara híbýla, aðallega fjölskyldumeðlimum eða vinum sem ég hef myndað á því árabili sem ég hef heimsótt Ísland. Einnig eru myndir af bændum – fólkinu sem býr í hvað mestri nánd við landið – í Þistilfirði þaðan sem Álfheiður er ættuð í föðurætt, svæði sem ég er farinn að upplifa sem heimahaga.

Svo eru portrett af steinum. Þegar tækifæri gefst nýt ég þess að fara í langar gönguferðir og kanna nýjar slóðir, stundum undir því skyni að feta í fótspor forfeðra og -mæðra Álfheiðar. Grjót og vatn eru ráðandi þættir í umhverfinu á þessum leiðöngrum mínum. Þegar maður er einn í landslaginu beinist skynjunin að hverju atriði sem sker sig úr. Þessi atriði taka á sig merkingu sem verður minnisstæð. Sum þeirra geymast í minni sem nöfn, sem er annað form nálægðar.

Ég ólst upp í Skegness, sjávarplássi á austurströnd Englands. Ég er sjálflærður ljósmyndari en ég byrjaði að taka ljósmyndir eftir sumarvinnu þegar ég var enn í menntaskóla á 8. áratugnum, þar sem ég myndaði ferðamenn við sjávarsíðuna. Ég lærði dýrafræði í háskóla og vann í kjölfarið um tíma við rannsóknir.

Þegar ég flutti til London árið 1984 fékk ég vinnu í upplýsingatækni, en frítímanum eyddi ég í ljósmyndaverkefni. Ég byrjaði að sýna nokkrum árum síðar, einkum í London í Photographers' Gallery.

Árið 1986 fór ég og kona mín Álfheiður í tveggja ára ferðalag um Asíu, mest í Kína og Indlandi. Ég tók gamla Rolleiflex myndavél með, sem ég nota enn. Ferðalagið leiddi til mikils áhuga á sögu og menningu þessara tveggja ólíku landa, sem ég fer reglulega til vegna ljósmyndaverkefna, útgáfu eða sýninga eins og hjá Tasveer Arts (Bangalore/Mumbai/Delhi/Kolkata), Ofoto gallerí (Shanghai), MoArtSpace (Henan), ljósmyndahátíðir þar á meðal Pingyao, Lianzhou, Dali & Tianshui, galleríið Camera Obscura í París og Hôtel Fontfreyde – Centre photographique, Clermont-Ferrand.

Frá því að ég giftist Álfheiði árið 1983, heimsæki ég reglulega heimaland hennar. Tengdafjölskylda mín og skáldskapur Halldórs Laxness var mér í upphafi innblástur við ljósmyndun á Íslandi og hef ég lokið við þrjár ljósmyndaseríur á landinu. Nýjasta ljósmyndaröðin, Steinholt (2011-2017), hefur verið sýnd í Gallerí Camera Obscura í París, Þjóðminjasafni Íslands, Mind Set Art Center í Taipei, Gallerí Le lieu í Lorient og Fondació Forvm í Tarragona, með bók sem Kehrer Verlag (Heidelberg) gefur út. Í haust kemur út bókin „Illuminations“ með litmyndum á vegum Kehrer. Viðfangsefnið er foreldrar mínir, fjölskyldusaga og húsið í Skegness sem þau hafa búið í í 65 ár. Ég hef búið og starfað nálægt Montpellier í Frakklandi síðan 1992. Ég nota analog-myndavélar á meðalstóru og stóru sniði, framkalla filmurnar sjálfur og ver miklum tíma í myrkraherbergi við framleiðslu á nokkuð stóru prenti fyrir sýningar. Ég hef verið fulltrúi Camera Obscura gallerísins í París síðan 1999.

#borginokkar