ágúst 19, 2021

Mjólk í mat og ull í fat

Árbæjarsafn sunnudaginn 22. ágúst kl. 13-16 

Mjólk í mat og ull í fat er yfirskrift sunnudagsins 22. ágúst en þann dag gegnir starfsfólk Árbæjarsafns ýmsum bæjarstörfum upp á gamla mátann sem fróðlegt er að fylgjast með.

Í gamla Árbænum gerir húsfreyjan upp skyr og strokkar smjör á meðan aðrir heimilismenn sulta úr rabarbara. Á baðstofuloftinu þeytir vinnukonan rokkinn og teygir lopann og ekki má gleyma lummubakstri í Hábæ. Í hugum margra hafa gömlu sveitastörfin yfir sér rómantískan blæ en til að fæða og klæða fólk þurfti mörg handtök á bænum. Sigurður Alfonsson harmóníkuleikari spilar skemmtileg og kunnuleg lög fyrir gesti á milli klukkan 14-16.

Klukkan 14 verður guðsþjónusta í litlu kirkju Árbæjarsafns. Prestur er séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson og organisti er Sigrún Steingrímsdóttir.

Í haga eru ær, lömb og hestar og um safnsvæðið vappa landnámshænur. Að vanda verður heitt á könnunni í Dillonshúsi og nýbakað góðgæti.

Ókeypis aðgangur fyrir börn, öryrkja og menningarkortshafa.

Árbæjarsafn er hluti af Borgarsögusafni: Eitt safn á fimm frábærum stöðum.

#borginokkar