• Heim
  • Fréttir
  • Miðstöð skóla, menningar og íþrótta opnar í Úlfarsárdal
desember 10, 2021

Miðstöð skóla, menningar og íþrótta opnar í Úlfarsárdal

Fjöldi fólks var samankominn í nýrri hverfamiðstöð í Úlfarsárdal sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði formlega í morgun. Í miðstöðinni er ný sundlaug og nýtt bókasafn.

Húsnæðið verður miðstöð mennta, menningar og íþrótta og mun gegna mikilvægu félagslegu hlutverki fyrir alla íbúa á öllum aldri. Um er að ræða eina stærstu byggingaframkvæmd sem Reykjavíkurborg hefur ráðist í. Heildarmannvirkið er um 18.000 m2 og hljóðar fjárfestingin upp á u.þ.b 14 milljarða króna.

Það er nýjung að sundlaug og bókasafn deili afgreiðslu og verður því mikið líf í húsinu. Mjög góð aðstaða er fyrir gesti og gangandi og verður gaman að þróa þjónustuna og upplifa samganginn milli skóla, bókasafns og sundlaugar. Vel er hugað að aðgengismálum og þörfum hreyfihamlaða í allri byggingunni.

Dalskóli er samrekinn leik- og grunnskóli, ásamt frístundaheimili. Í húsinu er einnig Félagsmiðstöðin Fellið sem hóf starfsemi í janúar 2021 og þjónustar börn og unglinga á aldrinum 10-16 ára. Í sumarbyrjun 2022 bætist svo við íþróttahús knattspyrnufélagsins Fram við og síðar sama ár verður keppnisvöllur utanhúss vígður. 

Borgarbókasafnið í Úlfarsárdal

Bókasafnið í Úlfarsárdal verður sjöunda safn Borgarbókasafnsins þar sem menning og mannlíf blómstra. Borgarbókasafnið deilir húsnæði með skólum, sundlaug og íþróttamiðstöð hverfisins og mun m.a. sinna skólasafnþjónustu fyrir Dalskóla. Safnið er því fyrsta samrekna almennings- og skólasafn Reykjavíkurborgar. Það er opið á opnunartíma sundlaugarinnar frá 6.30 til 22.00 og þá er gestum velkomið að nýta safnið, finna bók, skila bók eða bara njóta þess að slaka á, svo lengi sem ljósin eru kveikt. Þá geta gestir notast við upplýsingaskjái og sjálfsafgreiðslu til að lána og skila safnefni. Borgarbókasafnið í Úlfarsárdal er fyrsta safnið sem er með þetta langan opnunartíma. Á þjónustutíma alla virka daga frá klukkan 10.00 til 18.00 er starfsfólk safnsins tilbúið til að aðstoða gesti og veita upplýsingar. Fjölbreyttir viðburðir, námskeið og sýningar fyrir börn og fullorðna verða reglulega á dagskrá eins og í öðrum söfnum Borgarbókasafnsins auk þess sem boðið verður upp á aðstöðu sem hægt er að nýta fyrir fundi eða aðra viðburði. Í bókasafninu verður meðal annars fullbúið upptökuhljóðver, þar verður allt til taks sem þarf fyrir faglegar hljóðupptökur og geta gestir spreytt sig við að spila inn tónlist og söng eða stjórna upptökum. Eftir því sem tíminn líður munu áherslur safnsins þróast í takt við þarfir og óskir íbúa í Grafarholti og Úlfarsárdal og annarra gesta.

Dalslaug opnar

Dalslaugin er áttunda almenningssundlaug Reykjavíkur, en síðast opnaði Grafarvogslaug árið 1998. Laugin er vel útbúin með 25 metra sex brauta útilaug ásamt heitum pottum, köldum potti, vaðlaug og eimbaði. Einnig er innilaug sem nýtist vel til kennslu og æfinga en hingað til hafa börnin í Dalsskóla þurft að fara út fyrir hverfið til að stunda skólasund. Gert er ráð fyrir stórri rennibraut sem kemur næsta haust. Dalslaug verður opin virka daga frá klukkan 06:30 til klukkan 22:00 og frá klukkan 09:00 til klukkan 22:00 um helgar.

Heildaraðsókn í sundlaugar Reykjavíkur hefur verið rúmlega 2,3 milljónir gesta á ári og er Dalslaugin góð viðbót í ört stækkandi hverfum í austurhluta borgarinnar.

Framkvæmdin

Framkvæmdatíminn hefur spannað um sex ár og eru VA arkitektar aðalhönnuðir hússins, VSÓ ráðgjöf sá um alla verkfræðihönnun og Landmótun sá um lóðarhönnun. Umhverfisvottuð byggingarefni voru notuð eftir föngum, innlend þar sem því var við komið, og þess gætt að viðhaldsþörf yrði í lágmarki.

 Lögð var áhersla á þætti sem stuðla að heilsusamlegra umhverfi fyrir notendur byggingarinnar. Lögð er áhersla á að íbúar hverfisins noti sem mest umhverfisvænar samgöngur til og frá hverfismiðstöðinni. Strætisvagnar stoppa við bygginguna og þá eru næg hjóla- og hlaupahjólastæði við húsið og er hluti þeirra undir skýli. 

Smelltu hér fyrir síðu Borgarbókasafnsins í Úlfarsárdal 

#borginokkar