Tré
  • Heim
  • Fréttir
  • Ljósin tendruð á Hamborgartrénu laugardaginn 26. nóvember
nóvember 24, 2022

Ljósin tendruð á Hamborgartrénu laugardaginn 26. nóvember

Laugardaginn 26. nóvember klukkan 17:00 verða ljósin á Hamborgartrénu við Miðbakka í Reykjavíkurhöfn tendruð í 57. skipti.

Sú hefð að kenna jólatréð í Gömlu höfninni í Reykjavík við Hamborg á rætur sínar að rekja til fallegrar jólasögu. Íslenskir sjómenn sem komu í höfn í Hamborg eftir seinna stríð elduðu fiskisúpu handa svöngu fólki meðan verið var að landa úr togaranum þeirra. Sem þakklætisvott komu hafnaryfirvöld í Hamborg á þeirri hefð árið 1965 að senda jólatré til Reykjavíkurhafnar sem stendur við höfnina yfir hátíðarnar. Ekki er lengur siglt með grenitréð frá Þýskalandi vegna umhverfissjónarmiða, og hafa Faxaflóahafnir þess vegna keypt tré frá Skógræktinni í seinni tíð.

„Í ár fer athöfnin fram með breyttu sniði – þar sem verið er að tengja viðburðinn betur við upprunna hefðarinnar ásamt því að fleiri aðilar taka þátt í skipulagningu hans. Það er því von okkar að með þessu séum við að stuðla að fallegum jólaviðburði, sem getur vaxið með þeim sem starfa, búa eða heimsækja höfnina“, segir Sigurður Jökull Ólafsson markaðsstjóri Faxaflóahafna.

Dagskrá:

Gestum á Miðbakka verður boðið að þiggja fiskisúpu í boði Brims í pop up galleríi við Geirsgötu 2-4 á Hafnartorgi. Jólasveinar og harmonikkuleikari skemmta gestum og leika jólalög á Kolagötu og við Geirsgötu

- Formaður stjórnar Faxaflóahafna heldur ræðu

- Dr. Sverrir Schopka segir sögu Hamborgartrésins

- Lúðrasveit Hafnarfjarðar leikur jólalög við jólatréð

- Rebekka Guðmundsdóttir frá Brim tendrar ljósin á Hamborgartrénu

#borginokkar