Ganga
  • Heim
  • Fréttir
  • Gönguhátíðin í Reykjavík 2023 hefst í dag
maí 30, 2023

Gönguhátíðin í Reykjavík 2023 hefst í dag

Gönguhátíðin í Reykjavík er lýðheilsuhátíð sem er haldin af gönguklúbbnum Veseni og vergangi þriðja árið í röð

Boðið verður upp á nokkrar fjölbreyttar göngur í Reykjavík og nágrenni og kostar ekkert að taka þátt. Fyrirkomulagið er þannig að dagana 30. maí til 3. júní munu poppa upp viðburðir að fjölbreyttum göngum alla þessa daga. Fyrirvari á göngur verða einn til tveir dagar. Þetta er gert til þess að hámarka möguleikana út frá veðri og aðstæðum.

Göngur hafa verið ákveðnar fyrir fyrstu tvo dagana. Í kvöld, þriðjudag 30. maí verður ganga á Kjalarnesi þar sem gengið er frá félagsheimilinu Fólkvangi meðfram sjávarsíðunni að Presthúsum og til baka í fylgd Maríu Theodórsdóttur náttúrufræðings og Kjalnesings. Einnig verður farið á Reykjafell og Æsustaðafell og gengið um Skammadal í fylgd Einars Skúlasonar stofnandi gönguklúbbsins Vesens og vergangs. Á morgun miðvikudag 31. maí ætlar Jóhanna Fríða Dalkvist að leiða göngu upp með Leirvogsá að Tröllafossi og upp á Haukafjöll og á sama tíma verður Einar Skúlason með göngu frá verslun Fjallakofans við Hallarmúla um Laugardal, Laugarás og Laugarnes. Allar þessar göngur hefjast kl. 18.

Í kvöld og á morgun verða kynntar göngur fyrir fimmtudag.

Allar nánari upplýsingar um göngurnar eru á Facebook síðu gönguhátíðar í Reykjavík

#borginokkar