september 16, 2021

Dagur íslenskar náttúru í Grasagarðinum

16. september kl. 17 – Villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplantna 

Finnst ein lausnin á matvælavanda heimsins í gömlum túnum eða hreinlega úti í móa?

Fólk hefur stundað kynbætur á plöntum í 10.000 ár til að bæta bragðgæði jurta og til að auka uppskeruna. Á sama tíma hefur erfðafjölbreytnin í ræktuðu matjurtunum okkar minnkað sem er mikið áhyggjuefni á tímum loftslagsbreytinga.

Villtir ættingjar nytjajurtanna sem finna má á Norðurlöndunum eru t.d. kúmen, bláber, aðalbláber, jarðarber og ýmis fóðurgrös og eru meðal þeirra plantna sem geta skipt sköpum þegar kemur að auknu fæðuöryggi og sjálfbærni í heiminum.

Á degi íslenskrar náttúru mun Magnus Göransson, doktorsnemi í plöntukynbótum, fjalla um villtar erfðalindir ræktaðra nytjaplantna og mikilvægi þeirra og kynna um leið samnorræna sýningu um þessar plöntur sem var m.a. unnin í samstarfi við NordGen og Erfðanefnd landbúnaðarins. Sýningin verður í Grasagarðinum til loka september.

Fræðslugangan hefst við aðalinngang Grasagarðsins fimmtudaginn 16. september kl. 17. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir!

#borginokkar