Fossvogsdalur

Fossvogsdalur, um 2,5km langur, er miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og því einn mikilvægasti hlekkurinn í keðju opinna svæða allt frá miðborg Reykjavíkur að Elliðavatni og Heiðmörk. Dalurinn er flatlendur og gróðursæll, umlukinn íbúðarbyggð og því mikið nýttur til útivistar.

Fossvogsdalur er eitt best nýtta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Þéttriðið kerfi göngu- og hjólreiðastíga eru um endilangan og þveran dalinn.

Í báðum endum dalsins er mikil trjárækt, en graslendi þekur stóran hluta dalsins. Í trjáræktinni halda sig ýmsar tegundir fugla, einkum skógarþrestir, starrar, maríuerlur og auðnutittlingar.

Fossvogsdalurinn er afbragðsgóður til gönguferða, íþrótta og leikja, en einnig eru þar matjurtargarðar, skólagarðar, smíðavöllur og gæsluvöllur. Upp er að koma trjásafn þar sem trjátegundum er raðað saman eftir skyldleika. Fyrirhugað er að merkja tegundir með íslenskum og latneskum plöntuheitum.

 

#borginokkar