Borgarleikahúsið utan frá
  • Heim
  • Borgarleikhúsið

Borgarleikhúsið

Snemma árs 1975 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur stofnskrá fyrir Borgarleikhúsið í Reykjavík. Arkitektar hússins voru ráðnir Guðmundur Kr. Guðmundsson, Ólafur Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson, sem auk þess var lengi vel leikari hjá Leikfélagins. Fyrsta skóflustungan var tekin haustið 1976 í Kringlumýri og þann 3. september 1989 var Leikfélaginu afhent lyklavöldin að Borgarleikhúsinu sem var opnað með pompi og prakt með hátíðarhöldum dagana 20.–22. október 1989. Við það tækifæri voru frumsýndar tvær nýjar leikgerðir á sögum Halldórs Laxness, Ljósi heimsins á Litla sviðinu og Höll sumarlandsins á Stóra sviðinu.

Borgarleikhúsið er stærsta og best búna leikhús landsins, 10.400 fermetrar að stærð. Að auki telst það í hópi best búnu leikhúsa Evrópu. Í upphafi voru sviðin tvö, Stóra sviðið og Litla sviðið. Stóri salurinn er blævængslaga með einu, hallandi gólfi og tekur 547 manns í sæti, en sá litli er sexhyrndur með breytilegri sætaskipan og tekur að jafnaði 170-230 manns í sæti, en hefur tekið hátt á þriðja hundrað gesta. Í október 2001 var þriðja sviðinu bætt við, Nýja sviðinu, ,,svartur kassi“ sem býður uppá mikla möguleika hvað varðar rýmisnýtingu, en sæti eru þar fyrir allt að 300 áhorfendur. Þriðja hæðin, kaffileikhúsið, lítill salur við mötuneyti starfsmanna, hefur auk þess verið notaður við ýmsar uppákomur, fyrirlestra og sýningar. Leikið hefur verið á ýmsum öðrum stöðum í húsinu eins og í forsal leikhússins, í starfsmannarými baksviðs og að auki hefur verið boðið upp á sviðsettar skoðunarferðir um allt leikhúsið.

Frá opnun Borgarleikhússins hefur Leikfélag Reykjavíkur staðið fyrir metnaðarfullu starfi. Hjarta leikhússins er leikhópurinn sem flutti stoltur frá ,,gamla miðbænum“ í ,,nýja miðbæinn“ og hefur að jafnaði staðið fyrir öflugri en jafnframt fjölbreyttri verkefnaskrá ár hvert. Að auki hefur Leikfélagið tryggt annarri menningarstarfsemi aðstöðu í húsinu, boðið til sín gestaleikjum og tekið þátt í innlendu sem erlendu samstarfi. Í rúmlega 120 ár hefur Leikfélag Reykjavíkur verið leiðandi afl í leiklistarlífi þjóðarinnar. Borgarleikhúsið er eins og Iðnó forðum, menningarmiðja í Reykjavík.

Sjá meira

#borginokkar