Björgun stytta
  • Heim
  • Björgun úr sjávarháska

Björgun úr sjávarháska

Verkið er staðsett við Ægisíðu. Myndin Björgun varð til í Kaupmannahöfn er Ásmundur dvaldist þar veturinn 1936–37. Myndin sýnir björgun úr sjávarháska og hefur hún einnig verið nefnd Sjómennirnir.

Myndin var stækkuð í 4 m á árunum 1957–60 og steypt í brons árið 1983. Sviðsetning verksins er nokkuð tvíræð. Efri maðurinn stendur á skeri eða bátskili, sem allt eins gæti verið alda, og reynir að draga þann neðri úr öldurótinu. Mennirnir tveir mynda samfellda hvirfilhreyfingu sem gengur frá hægri fæti neðri mannsins upp í vinstri hönd þess sem hærra stendur. Áherslan er lögð á átakið, andartakið þegar maðurinn er dreginn úr sjó – greipum dauðans. Hér er það myndbyggingin, hvirfilhreyfingin, sem miðlar inntaki verksins og því er innri formgerð – anatómía og hlutföll – beygð undir heildarsýn verksins og löguð að því. Þannig tökum við eftir því hvernig hægri handleggur og öxl efri mannsins eru ummynduð við átakið og látin renna inn í heildarhreyfingu myndarinnar. Því má segja að dramatískt inntak verksins kalli á umbreytingu formsins.

Ásmundur Sveinsson fæddist að Kolsstöðum í Dalasýslu 20. mai 1893. Árið 1915 kom Ásmundur til Reykjavíkur og lagði stund á tréskurðarnám hjá Ríkharði Jónssyni. Jafnframt því var hann við nám í Iðnskólanum. Haustið 1918 sigldi Ásmundur til Kaupmannahafnar og var þar í teikniskóla einn vetur hjá Viggo Brandt. 
Ásmundur kom aftur heim vorið 1929 eftir tíu ára búsetu erlendis. Árið 1933 reisti hann sér hús við Freyjugötu, sem nú er Ásmundarsalur og er listasafn ASÍ þar til húsa. 
Árið 1942 hóf hann byggingu kúluhússins við Sigtún og nokkru seinna bætti hann við pýramídunum tveimur.  Á árunum 1954-59 reisti hann svo bogaskemmuna. Húsin hannaði hann og byggði að mestu sjálfur og voru þau hvortveggja í senn heimili hans og vinnustofa. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg listasafn sitt eftir sinn dag. Hann andaðist í Reykjavík 9. desember 1982. Árið 1983 stofnaði Reykjavíkurborg safn helgað Ásmundi Sveinssyni í húsinu. Byggt var við safnið árið 1991og kúlan og boginn tengd saman. Arkitekt viðbyggingarinnar er Manfreð Vilhjálmsson.

#borginokkar