Skip to main content

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn er útisafn sem er opið allan ársins hring. Þar er safn gamalla húsa sem flest hafa verið flutt á safnsvæðið úr miðbæ Reykjavíkur. Svæðið skiptist í torg, þorp og sveit og gefur góða mynd af umhverfi og bæjarbrag í Reykjavík á 19. og 20. öld.

Árbær var rótgróin bújörð allt fram á 20. öld og hafði lengi verið áningarstaður fólks á leið til og frá Reykjavík. Býlið fór í eyði undir 1950 og árið 1957 samþykkti bæjarráð Reykjavíkur að þar skyldi gamli bærinn endurbyggður og komið upp safni gamalla húsa, sem hefðu menningarsögulegt gildi. Fyrsta flutningshúsið, Smiðshús, var flutt þangað árið 1960 og ári síðar kom Dillonshús.

Í Árbæjarsafni er leitast við að gefa hugmynd um byggingarlist og lifnaðarhætti í Reykjavík og á sumrin má þar sjá húsdýr og mannlíf fyrri tíma. Í safninu er boðið upp á fjölda sýninga og viðburða, þar sem einstökum þáttum í sögu Reykjavíkur eru gerð skil. Þar má nefna handverksdaga, fornbílasýningu, jólasýningu og margt fleira. Árbæjarsafn er tilvalinn staður fyrir fjölskylduna að eyða parti úr degi enda nóg við að vera fyrir börn sem fullorðna.